Vetrarfærðin

Bæjarráð Grundarfjarðar fjallaði um á fundi sínum fyrir í síðustu viku um væntanlega skerðingu á vetrarþjónustu Vegagerðarinnar. Þetta kom fram í pósti til fyrirtækja í flutningaþjónustu segir í fundargerðinni og jafnframt spurt hvort fyrirtæki í flutningaþjónustu séu tilbúin að greiða hluta kostnaðar við vetrarþjónustu.
Stykkishólms-Pósturinn leitaði eftir svörum hjá Vegagerðinni um vetrarþjónustuna.
„Póstur/bréf Grundarfjarðarbæjar er í kjölfar fundar með flutningsaðilum sbr meðfylgjandi póst þegar boðað var til hans. Þar er ekki minnst á þjónustuskerðingu eins og bréfið ber með sér – á fundinum var samt sagt að yrði veturinn erfiður myndi áætluð fjárveiting til vetrarþjónustu ekki duga til. Bréfið er árétting um hvað þjónustan er mikilvæg og viðkvæm.
Á fundinum voru flutningsaðilar m.a. inntir eftir því hvort vilji væri fyrir því að taka þátt í að greiða fyrir þjónustu utan þjónustutíma yrði slíkt í boði.
Í meginatriðum þá var lítill áhugi fyrir því, fordæmið sé ekki gott – þeir eru frekar á því að bíða veður af sér. Einnig var spurt út í lokanir. Þar var mikill einhugur um að Vegagerðin lokaði vegum þ.a. þeir þyrftu ekki að taka sjálfir ákvarðanir um að leggja af stað – það væri einfaldlega lokað. Þeir kalla í raun eftir meiri lokunum, sérstaklega vegna vindhviða (Hafnarfjall, Kjalarnes).“
Við þetta er svo að bæta að upplýsingar um vetrarþjónustuna er að finna á vef Vegagerðarinnar og þar má sjá að Vatnaleið er t.d. þjónustuð yfir vetrartímann til kl. 19.30 virka daga og skv. heimildum Stykkishólms-Póstsins þá gerðist það í fyrra að flutningabílarnir t.d. úr Baldri og þeir sem væru í fiskflutningum lentu í vandræðum á Vatnaleiðinni.

 

sp@anok.is