Vetrarfögnuður á Dvalarheimilinu

Glatt á hjalla
Glatt á hjalla

Miðvikudaginn 26. október sl. var mikið fjör á Dvalarheimili Stykkishólms, eins og svo oft áður. Þá var haldinn vetrarfögnuður með ýmsum uppákomum. Dagbjört Höskuldsdóttir las fyrir gesti og fór með ljóð. Einnig voru tónlistaratriði frá annars vegar Draugabanabræðrunum Mattíasi Arnari og Hafþóri Þorgrímssonum og hins vegar tveimur meðlimum úr hljómsveitinni Þrír. Það eru þau Sigurbjörg María Jósepsdóttir og Jón Torfi Arason, kalla þau sig 2/3 þegar þau koma saman.

Hafþór Ingi, Sigurbjörg, Dagbjört, Jón Torfi og Mattías Arnar.
Hafþór Ingi, Sigurbjörg, Dagbjört, Jón Torfi og Mattías Arnar.

Fosshótel Stykkishólmi lánaði glös undir drykki fyrir fögnuðinn. Þær Jóhanna Sesselja Jónsdóttir og Karen Jónsdóttir blönduðu svo saman kokteila og skreyttu glösin fagmannlega. Innan handar voru þær Sólveig Ásgeirsdóttir, Kristín Benediktsdóttir og Þrúða Jóhannesdóttir.

Mikil ánægja var með framtakið, sem var alfarið í sjálfboðavinnu, og voru íbúar og starfsmenn Dvalarheimilisins í sjöunda himni eftir skemmtunina.