Viðburðum frestað vegna veðurs

Kör fuku í höfn í Snæfellsbæ fyrr í vetur. Myndin tengist  fréttinni óbeint.
Kör fuku í höfn í Snæfellsbæ fyrr í vetur. Myndin tengist fréttinni óbeint.

Eftir mikil hlýindi og hægviðri hefur veðrið tekið stakkaskiptum með stormi og éljagangi.

Búist er við SV stormi eða roki (20-28 m/s) í dag og éljagangi með hvössum hviðum (35-45 m/s). Víða er skafrenningur og skyggni lélegt á vegum. Það lægir með kvöldinu en hvessir aftur á morgun víða um land. Hiti er í kringum frostmark. Veðurfræðingur varar við stormi aftur á morgun í viðvörun á vedur.is

Vegna veðurs hefur verið ákveðið að fresta Jólamóti HSH í frjálsum íþróttum sem halda átti í dag, 28. des., fram í janúar og verður það nánar kynnt síðar.

Einnig hefur ferð Baldurs yfir Breiðafjörð sem átti að fara í dag verið frestað vegna slæmrar veðurspár.

Jarðarför sem vera átti í Grundarfirði fimmtudaginn 29. des. færist til föstudagsins 30. des.

Björgunarsveitir eru tilbúnar til taks í viðbragðsstöðu en enn hefur ekkert komið upp á í dag. Í gær var sveitin í Stykkishólmi kölluð fengin til þess að taka niður vinnupall og björgunarsveitarfólk úr Grundarfirði hjálpaði til á bænum Kolgröfum þar sem þak á fjárhúsum losnaði.

Fólk er beðið um að huga að lausamunum og vera ekki að ferðast langar vegalengdir að óþörfu.