Virkjunarframkvæmdir komnar af stað við Svelgsá

Allt frá árinu 2008 hefur staðið til að virkja Svelgsá í Helgafellssveit.  Fyrirhuguð framkvæmd sem sótt var um 2007/2008 var kærð og í september árið 2012 kom fram úrskurður frá Skipulagssstofnun þess efnis að ekki þyrfti að fara með fyrirhugaða virkjun í umhverfismat. Um þessa niðurstöðu fjölluðum við um í Stykkishólms-Póstinum hér.  12. mars 2015 tók sveitarstjórn Helgafellsveitar fyrir á fundi sínum deiliskipulagsbreytingu vegna vatnsaflsvirkjunar í Svelgsá í landi Hrísa.  Breytingin fór í kjölfarið í auglýsingu og hefur tekið gildi.  Í síðustu viku hófust framkvæmdir við fyrirhugaða virkjun.  Skv. heimildum Stykkishólms-Póstsins eru væringar um framkvæmdina í sveitinni. Í síðustu viku var vegur upp með ánni grafinn í sundur og þurftu verktakar að útbúa nýjan veg til að geta hafið verkið. Stykkishólmsbær bókaði á fundi bæjarráðs s.l. laugardag og sendi oddvita Helgafellssveitar í kjölfarið svohljóðandi bréf:

„Hreppsnefnd Helgafellssveitar

Frú Sif Matthíasdóttir oddviti

Hrísakoti, Helgafellssveit.

Á fundi bæjarráðs Stykkishólmsbæjar í gær laugardaginn 30. maí 2015 var samþykkt svofelld bókun vegna áforma um framkvæmdir við virkjun Svelgár í Helgafellssveit nærri VATNSBÓLI Vatnsveitu Stykkishólms, sem nú er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur.  Tilefni þessarar samþykktar er sú staðreynd að virkja á mjög nærri lindunum og er það mat þeirra sem þekkja til staðhátta, að veruleg hætta sé á mengun frá framkvæmdum, sem gæti leitt til þess að vatnsbólið verði ekki nýtanlegt. Framkvæmdasvæði fyrirhugaðrar virkjunar nær inn á VATNSVERNDARSVÆÐI vatnsveitunnar sem er mjög háskalegt.  Mengist vatnsbólið hefði það alvarlegar afleiðingar fyrir íbúa Stykkishólms, sem eiga allt undir því, að þetta vatnsból  verði áfram nýtt í þágu  bæjarbúa og þeirra fyrirtækja sem nota vatnið til matvælaframleiðslu svo sem gert hefur verið frá árinu 1974 með samkomulagi við landeigendur í Helgafellssveit og á grundvelli vatnalaga og laga um vatnsveitur sveitarfélaga svo sem þau lög hafa verið á hverjum tíma.  

20.          1505029 – Virkjun Svelgsár og vatnsverndarsvæði Vatnsveitu Stykkishólms. 

Bæjarstjóra falið að koma fram athugsemdum við stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur og hreppsnefnd Helgafellssveitar um að tryggt sé að engin hætta stafi af virkjanaframkvæmdum gagnvart vatnsbóli bæjarins sem er við Svelgsárhraun. Jafnframt verði Heilbrigðiseftirliti Vesturlands gert viðvart og þess krafist að gengið verði úr skugga um að öllum reglum verði fylgt gagnvart því að tryggja hagsmuni vatnsnotenda í Stykkishólmi sem eiga mikið undir því að vatnsbólið verði ekki mengað vegna framkvæmda og mikils rasks við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir við Svelgsá. 

Þetta tilkynnist hér með og er þess vænst að brugðist verði við þegar í stað svo tryggja megi ofangreinda hagsmuni og komið í veg fyrir alvarlegt mengunarslys sem gæti orðið ef ekki er farið að öllum reglum við vatnsból Stykkishólmsbæjar. Óskað er eftir að erindi þessu verði svararð og móttaka þess staðfest.

Sturla Böðvarsson

Bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar.“

Skipulagsupdrættir Skipulagsstofnunar