Styrkir vegna fullveldisafmælis á Snæfellsnes 2018

Styrkveitingar í Safnahúsinu.

Mynd/Geirix

Á næsta ári fögnum við aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Afmælisnefnd var falið, samkvæmt þingsályktun, að standa fyrir hátíðarhöldum um land allt. Var ákveðið að fara þá leið að leita til landsmanna um mótun dagskrár afmælisársins. Auglýst var eftir tillögum að verkefnum á dagskrána. Alls bárust 169 tillögur og var sótt um rúmlega 280 milljónir króna.  7. desember s.l. voru kynnt þau 100 verkefni sem valin voru úr innsendum tillögum.  Viðstaddir voru rúmlega 100 gestir, fulltrúar verkefna af öllu landinu.

Verkefnin sem valin voru á dagskrána eru fjölbreytt og verða unnin um land allt. Þau bera með sér hugmyndaauðgi og gefa mynd af öflugu menningar- og atvinnulífi í landinu. Verkefnin spanna allt litrófið; þau eru stór og umfangsmikil eða minni um sig, en öll styrkja þau ímynd þjóðarinnar sem sjálfstæðrar og fullvalda þjóðar í samfélagi þjóðanna. Mörg verkefnanna fela í sér samstarf einstaklinga, samtaka og stofnana hér á landi og erlendis, en sérstaklega var hvatt til nýsköpunar í áherslum sem nefndin kynnti á vef sínum þegar auglýst var eftir verkefnum á afmælisdagskrána.

Verkefni sem hlutu styrki á Snæfellsnesi eru tvö.Stykkishólmsbær og stofnanir bæjarfélagsins standa fyrir ýmsum viðburðum á afmælisárinu. Tónlistarskólinn leggur áherslu á að kynna og flytja íslenska tónlist og ættjarðarlög ásamt því að nemendur semja lög með tímamótin í huga. Veitt verða verðlaun. Þjóðbúningahátíðin Skotthúfan verður haldin á vegum Norska hússins. Opnuð verður sýning í Amtsbókasafninu á verkefnum nemenda þar sem fjallað verður um hvernig var að alast upp 1918 samanborið við 2018. Grunnskólinn mun efna til ritgerðasamkeppni og Ljósmyndasafn Stykkishólms sýnir ljósmyndir tengdar 1918. Leikskólinn mun vinna verkefni tengd íslenska fánanum og halda sýningu. Fullveldisdagurinn 1. desember verður hápunktur hátíðahaldanna. Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla mun opna sýningu um tengsl Jóns Sigurðssonar við ýmsa framfaramenn búsetta í Stykkishólmi á 19. öld. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes fékk úthlutað styrk til að halda Barnamenningarhátíð á Snæfellsnesi Á barnamenningarhátíðinni verður sérstök áhersla lögð á fjölmenningarsamfélagið sem við búum í. Á hátíðinni verður kynning á 21 þjóðerni sem búsett er á Snæfellsnesi. Á barnamenningarhátíðinni fer fram kynning á matarhefðum, þjóðdönsum söng o.fl. Verkefnið er unnið í samvinnu við Frystiklefann á Rifi og alla skóla á Snæfellsnesi.

Hægt er að skoða aðra styrkhafa hér.