Þorrablót í Röstinni

Þorrblótsgestir létu veðrið ekki aftra sér á laugardagskvöldið en þá var Þorrablót Neshrepps utan Ennis haldið í Röstinni á Hellissandi. Það voru Lionsklúbbur Nesþinga, Lionsklúbburinn Þerna og Kvenfélag Hellissands sem stóðu að blótinu. Vel var mætt á blótið en 180 miðar seldust á það. Veislustjóri kvöldsins var hin eina sanna Dóra Unnars og fór hún á kostum að venju. Þröstur Kristófersson flutti minni kvenna og Dóra Unnars flutti minni karla. Blótsgestir gæddu sér á dýrindis þorramat frá Múlakaffi áður en skemmtiatriðin hófust. Nefndin hafði greinilega lagt mikla vinnu í frábær skemmtiatriði sem komu öllum salnum til að skellihlægja og myndaðist góð stemmning í salnum. Skemmtiatriðin samanstóðu af gömlu og nýju efni og búið að leggja mikla vinnu í að útbúa myndbönd og texta við lög sem skiluðu sér vel til gestanna. Að skemmtiatriðunum loknum tóku þau Sigga Beinteins, Grétar Örvars og Jogvan við og héldu upp fjöri fram eftir nóttu. Þó veðrið væri ekki gott komust allir gestir blótsins heim heilu og höldnu.
þa