Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Þú getur ekki glatað því sem þú hefur gefið öðrum

„Það er eitthvað heillandi við að ferðast um Jakobsveginn á Spáni. Þar gerist alltaf eitthvað merkilegt og hver og einn upplifir ferðina á sinn hátt.“ Þetta er texti á heimasíðu ferðaskrifstofunnar Mundo sem skipuleggur ferðir víða um heim. Jakobsvegur eða Vegur heilags Jakobs er ein þekktasta pílagrímaleið í Evrópu. Hann heitir á spænsku El Camino de Santiago. Jakobsvegurinn endar í dómkirkjunni í Santiago de Compostela í héraðinu Galisíu á Spáni en hefst þar sem pílagrímurinn leggur af stað. Leiðin er því mislöng og upphaf hennar getur verið í mismunandi löndum, hjá hverjum göngumanni. Vinsælasta leiðin er franska leiðin og er hún um 1300 km löng. Snemma skapaðist helgisögn um tengsl Jakobs postula við norðvestur Spán og á 9. öld var álitið að líkamsleifar hans hefðu fundist þar sem nú er borgin Santiago de Compostela og er hún nefnd eftir Jakobi. Fljótlega fóru trúaðir víðsvegar að úr Evrópu að fara í bótgerðar- og þakkargöngur til borgarinnar og varð hún þriðji mikilvægasti ákvörðunarstaður kristinna pílagríma á eftir Jerúsalem og Róm. Gríðarlegur fjöldi göngufólks leggur leið sína um veginn í viku hverri.  S.l. sumar lagði hópur kvenna upp frá Íslandi til að ganga Jakobsveg þennan.  Leiðin lá til Astorga á Spáni, en um þá borg liggur Jakbosvegurinn. Fararstjórar voru þær Margrét Jónsdóttir Njarðvík, Þórhalla Andrésdóttir sjúkraþjálfari, Kristín Sigurðardóttir læknir og Sr. Elínborg Sturludóttir.

Í hópi göngukvennanna var Magðalena Hinriksdóttir (Malla) leikskólakennari hér í Stykkishólmi og lýsir hún ferðinni sem frábærri, mannbætandi og skemmtilegri.  Malla rifjar upp með blaðamanni ferðina góðu frá s.l. vori.

Við dómkirkjuna í Santiago de Compostela.

Hugmyndin um að fara Jakobsveginn segir Malla hafa kviknað eftir samtal í heita pottinum við Steinunni Jensdóttur (Distu) árið 2014 hér í Hólminum. Dista var að fara að ganga Jakobsveginn ein síns liðs árið 2015 og kveikti áhuga Möllu.  Úr varð að Dista sendi henni tengilinn á ferðabloggi sínu (jakobsvegurinn2015.tumblr.com).  Malla fékk síðan Distu, eftir ferð hennar, til að koma í Hólminn og segja frá ferðalaginu í ársbyrjun 2016. Vel var mætt á kynninguna og konur mjög áhugasamar. Malla var vongóð um að fá ferðafélaga með sér í þessa ferð héðan úr Hólminum en svo fór það þannig að hún skráði sig ein í ferðina héðan.  Hún sagði það mikla áskorun og það hafi verið ákveðið skref að stíga út fyrir rammann og láta slag standa með að fara. Hún hafi hinsvegar ekki séð eftir því.

Hún kynnti sér bækur um Jakobsveginn og sá einnig þætti Thors Vilhjálmssonar um göngu hans, á sínum tíma. Þegar skráningar í ferðina lágu fyrir hjá ferðaskrifstofunni var umsvifalaust stofnaður Facebookhópur þátttakenda þar sem umræður og undirbúningur ferðarinnar fór fram.  Skipulagðar voru göngur frá Borgarfirði sem enda áttu í Skálholti í nokkrum áföngum.  Þetta var fyrripart árs og veðurlag hagaði því þannig að Malla tók ekki þátt í göngunum í Borgarfirði en gekk hinsvegar talsvert hér á Snæfellsnesi.  Í ljós kom að þegar hópurinn hafði verið stofnaður, að þar voru konur sem tengdust Snæfellsnesi, tvær þeirra bjuggu á Nesinu en aðrar tengjast hingað svosem tveir fararstjóranna af fjórum, Elínborg Sturludóttir og Þórhalla Andrésdóttir. Þannig sköpuðust fljótt tengsl og gekk Malla t.d. í Kerlingarskarð með einni konu búsettri hér á Snæfellsnesi.

Svona ganga getur tekið á en Malla hefur stundað hlaup í 25 ár og er því í góðu líkamlegu formi og hafði þannig ekki áhyggjur af því.  Hinsvegar var ferðin áskorun á annan hátt eins og áður var nefnt með að fara einn í krefjandi göngu og svo það að ferðin er ekki síður andlegt ferðalag.

Snæfellingarnir Katrín, Lydía, Elínborg og Magðalena.

Undirbúningsfundur var haldinn í Reykjavík þar sem hópurinn hittist og kom þá fram að best væri að hafa með sér sem minnstan farangur þrátt fyrir að um lúxusferð væri að ræða, segir Malla.  Hópurinn gisti á ágætum hótelum á leiðinni og einn fararstjóra var á þjónustubíl sem ferjaði farangur á milli hótelanna á meðan hópurinn gekk með dagpoka. Það voru yndislegar konur í hópnum, segir Malla, svo mikill kærleikur og nánd frá upphafi. Talað var um það á kynningarfundinum að það sem konur heyrðu í ferðinni myndu þær geyma með sér. Flestar konur myndu einnig eiga daga þar sem losnar um,  en það gerist oft þegar þreytan fer að leka af göngufólkinu, álagið að heiman að minnka og tekist hefur að slaka niður í það að sofa, borða og ganga og ekkert annað. Þá er einvera vel þegin hjá sumu göngufólki á meðan aðrir þiggja útrétta hönd en hver og einn myndi finna sína leið.

Á stígnum.

Ferðalagið stóð í tvær vikur og samtals voru gengnir um 300 km að jafnaði 20-25 km á dag.  Stundum á jafnsléttu en einnig kom dagur þar sem hækkunin var yfir 1000m þann daginn. Dagurinn hófst alltaf á morgunverði og síðan var farið að pakka saman og ganga frá á herbergjum.  Áður en lagt var af stað voru gerðar teygjur og líkaminn vakinn undir stjórn Þórhöllu sjúkraþjálfara.  Að því loknu leiddi Elínborg hópinn saman og andlegu hliðinni var sinnt fyrir gönguna.  Segir Malla að morgunstundirnar hafi verið mjög gefandi og gott upplegg fyrir göngu dagsins.  Gangan hófst alltaf í þögn og var í upphafi ákveðið hversu lengi það stóð yfir.  Einn fararstjóri var fremstur, annar í miðið og sá þriðji síðastur. Að öðru leiti gengu konur á sínum hraða, saman eða einar sér allt eftir því hvernig stemningin var þá stundina.  Það var mjög gott að ganga einn, segir Malla, tíminn hafi nýst vel til að hugsa, upplifa og njóta útsýnis. Á hádegi var stoppað til að nærast og þá var Margrét fararstjóri búin að finna góðan stað, grasbala eða undir tré jafnvel og dúka upp og raða á hann matföngum beint af markaði í nágrenninu.  Þá nýtti Malla stoppið m.a. til að skipta um skó, en hún var með tvenna skó á göngunni, opna skó og utanvega hlaupaskó.  Hún var heppin, því hún fékk aldrei blöðrur á fæturnar, eitthvað sem er gríðarlega mikilvægt í ferð sem þessari. Þessar stundir segir Malla hafa verið dásemdarstundir og áður en lagt var að stað aftur var fyllt á vatnsbirgðir sem var mjög mikilvægt enda vel heitt suma dagana. Í lok dags á hverjum stað fóru göngukonur alltaf í ískalt fótabað og segir Malla það hafa verið skemmtilegar stundir og mikið hlegið. Því næst mættu allar konurnar saman út undir bert loft með dýnur sínar og fóru í jóga undir leiðsögn Þórhöllu og síðan slökun og teygjur.   Malla sagðist fyrir ferðina ekki hafa haft trú á sjálfri sér í þessum dagskrárlið en þetta hafi reynst frábært því maður færi í einhverskonar hugarástand og nyti augnabliksins vel. Svo voru höfð fataskipti og snæddur kvöldverður.  Eftir það lagst til svefns. Sumir dagar voru erfiðari vegna hita eða rigninga eða að gangan þann daginn var í lengri kantinum eða að hækkun var talsverð. Leiðin sem gengin er, er vörðuð merkjum stígsins, skelinni. Göngumenn til forna þáðu mat í skeljarnar og þær urðu að einkennistákni stígsins. Síðustu 300 km að Santiago de Compostela, þar sem gangan endar, liggur um grösugar lendur Galisíu héraðs.

Aðspurð um það hvernig ferðalagið hafi verið segir Malla: „Ég lét bara leiða mig áfram. Ég var tilbúin andlega fyrir ferðina og lét ekkert trufla mig, það var mjög notalegt og ég sveif bara með. Fólk er auðvitað með misjafna reynslu í farteskinu og Elínborg bað okkur um, áður en við fórum út, að ná í stein út í náttúruna. Ég fór á Drápuhlíðarfjall og sótti stein. Þennan stein áttum við eftir að skilja eftir á ákveðnum stað á leiðinni sem tákn fyrir þær byrðar í lífinu sem við vildum kveðja.

Tilfinningarnar sveifluðust þennan tíma því það var svo margt sem maður sá á stígnum. Maður gekk fram á t.d. minnismerki um mann sem látist hafði þarna í sinni göngu. Við gengum fram á stórt tré sem í héngu pappírsmiðar, það reyndust svo vera miðar sem innihéldu drauma fólks og hinir og þessir höfðu hengt á tréð.  Samt vorum við bara að ganga þennan hluta vegarins, hann er aðeins 300km af heildinni, svo það er margt að sjá. Þetta snerti okkur djúpt. Svo sá maður fólk aftur og aftur sem var á göngunni og var farinn að heilsast með orðunum Bien Camino, nokkurs konar gangi þér vel á stígnum.

Þegar við komum á leiðarenda var stundin mögnuð. Við föðmuðumst allar og sungum einum rómi Ég er komin heim, grétum og hlógum til skiptis. Það var einstakt augnablik. Áfanganum þarna var náð eftir langt ferðalag sem reyndi líkamlega og andlega á alla ferðafélagana. Ég held að allir komi sterkari út úr svona ferð, einhvernveginn er kærleikurinn svo ríkjandi hjá göngufólki, þó margir sem fara séu að vinna á einhvern hátt í sínum málum. Maður eignast nýja vini og öðlast nýja sýn á lífið í mörgum tilfellum. Við stefnum á að hittast aftur í janúar á næsta ári og auðvitað dreymir mig um að fara aftur.“

am/frettir@snaefellingar.is
Ljósmyndir eru frá Magðalenu
og einnig af Facebook síðum ferðafélaga hennar.