Tíðarfarið og júlíviðburðir…

Meðalhitinn í júlí hér í Stykkishólmi var 10°C og var það 0,1 yfir meðalhita áranna 1961-1990 en -1,2 undir meðalhita áranna 2008-2017. Hlýnaði því nokkuð í júlí m.v. júní í sumar. Úrkoma í júlí mældist 74,9 mm sem er 75% umfram meðallag og það mesta í júlí frá árinu 1977. Snögg hitabylgja gekk yfir 29. júlí þegar hiti fór allvíða yfir 20 stig. Skv. spám þessa dagana verður hitinn 10+ gráður, nokkuð lygnt og þurrt, ss gott heyskaparveður.

Alltaf er nóg við að vera og hefur mikið sést til bátaeigenda undanfarið en bátum hefur fjölgað talsvert nú í sumar og hafa komið víða að en mest líklega frá Kína. Enda ekki amalegt að sigla um hinn fagra Breiðafjörð í blíðu. Hestamenn hafa riðið um héruð og dvelja nokkrir þeirra hér úr Hólminum á erlendri grundu og kynna sér hestamennsku í Þýskalandi. Menningin blómstrar sem fyrr, tónleikar, sýningar og fleiri viðburðir út um allt Nes. Bæjarhátíðir voru haldnar í Grundarfirði og á Hellissandi og Rifi og nú komið að Dönskum dögum í Stykkishólmi sem haldnir verða um þarnæstu helgi.

Á kokkteilhelgi sem haldin var hér í Hólminum í júlí bar Skúrinn sigur úr býtum með kokkteilinn Týndu sólina sem Finnbogi Þór starfsmaður á Skúrnum á heiðurinn af.