Tvöfaldast íbúafjöldinn?

Þessa dagana má glögglega sjá víða um land skemmtiferðaskip, annaðhvort þar sem þau liggja við bryggju eða í næsta nágrenni hennar.  Grundarfjörður hefur í mörg ár tekið á móti fjölmörgum skemmtiferðaskipum og má t.a.m. sjá á áætlun sumarsins að þau verða allnokkur í sumar.  Fyrir nokkrum sumrum fóru skemmtiferðaskip að venja komur sínar í Stykkishólm, en það eru skip af minni gerð en t.d. í Grundarfirði.  Það er ekki algeng sjón að tvö slík skip séu við Stykkishólm sama daginn, en það gerðist í morgun.  Litlir bátar fóru fram og til baka í Hurtigruten sem var fjær, með farþega í land og frá Ocean Diamond sem lá við bryggju streymdi fólk út á bryggjuna.  Gulir, grænir, rauðir og bláir stakkar verða því áberandi í bæjarlífinu í Stykkishólmi í dag og lita hversdaginn.