Þriðjudagur , 19. febrúar 2019

Umsögn um frumvarp til laga um lögheimili og aðsetur

Nú er til umræðu hjá Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis frumvarp til laga um lögheimili og aðsetur. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent nenfdinni umsögn sína um frumvarpið.

Nokkuð hefur borið á umræðu hér á landsbyggðinni um tvöfalda búsetu en sambandið segir í umsögn sinni:

„Frumvarpið leggur til að hjónum verði heimilað að skrá sig til lögheimilis á hvorum sínum staðnum og er um nýmæli að ræða. Sama gildir ekki um sambúðarfólk enda er um að ræða annars konar sambúðarform og skráðri sambúð verður ekki að öllu leyti jafnað við hjúskap. Að áliti sambandsins er tilefni til að ræða hvort þessi undantekning frá meginreglu um sameiginlegt lögheimili hjóna sé ekki of rúm. Mögulegt ætti að vera að skilyrða slíka skráningu, þannig hún gildi tímabundið, og að heimilt verði að sækja um hana af nánar tilgreindum ástæðum, svo sem vegna atvinnu.

Að áliti sambandsins er líklegt að alger opnun á að hjón þurfi ekki að eiga sama lögheimili muni með tímanum leiða til aukins ákalls um tvöfalda lögheimilisskráningu barna. Slík skráning gæti haft veruleg áhrif á þjónustu og útgjöld sveitarfélaga, ekki síst í skólamálum. Hefur sambandið áður veitt umsagnir um hugmyndir um tvöfalda búsetu og skólavist barna og í meginatriðum lagst gegn slíkum hugmyndum.“

Nánar http://www.samband.is/frettir/skipulags-og-byggdamal/nr/3343