Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Útvarp G.Snb

screen-shot-2016-12-22-at-14-37-15Nú á aðventunni var í fyrsta sinn útvarp á vegum Grunn­skóla Snæfellsbæjar. Sent var út á tíðninni 103,5 sem náðist í Ólafsvík, Rifi, Hellissandi og í Grundarfirði. Jafnframt var sent út á netinu. Við höfum haft spurnir af hlustendum víða um heim. Útsendingartíminn var 32 klukkustundir. Ýmist var sent út í beinni eða sendir út þættir sem voru hljóðritaðir áður. Meginreglan var sú að nemendur í 1.-­7. bekk unnu bekkjarþætti sem voru hljóð­ritaðir fyrir útsendingu, undir stjórn kennara. Nemendur í 8.-­10. bekk sömdu handrit sín í skólanum, undir handleiðslu kennara, og fluttu svo í beinni útsendingu. Nemendur fengu tækifæri til að vinna verkefni á fjölbreyttari hátt þar sem reyndi á skipulagshæfni, framkomu og framburð.

Skipað var útvarpsráð nem­enda sem hélt utan um dag­skrárgerðina og var það undir stjórn Hugrúnar Elíasdóttur, verkefnastjóra við skólann.

Tilnefnt var í tækninefnd sem hafði umsjón með tækni­málunum, tók upp það allt efni og hafði umsjón með útsend­ingunni. Þröstur Kristófersson, tölvuumsjónarmaður, var þeirra umsjónaraðili. Fyrirtæki og stofnanir styrktu okkur með kaupum á auglýsingum og jólakveðjum sem nemendur lásu og léku með tilþrifum.

Setti sá þáttur skemmtilegan svip á útvarpið.

Heilt yfir gekk útvarpsút­sendingin mjög vel. Starfsfólk og nemendur stóðu vel saman í þessari vinnu og höfðu allir gagn og gaman af. Fljótlega eftir að útvarpinu lauk var verkefnið metið af nemendum og starfs­mönnum. Tvær spurningar voru lagðar þar til grundvallar með það að markmiði að gera betur næst: Hvað heppnaðist vel og hvað getum við gert betur?

Við viljum þakka fyrir frábærar móttökur og jákvæð viðbrögð. Stefnt er að því að vera með útvarp að ári liðnu.

Birtist fyrst í Bæjarblaðinu Jökli