Vel heppnaður haustmarkaður á Breiðabliki

Árlegur haustmarkaður var haldinn á Breiðabliki s.l. sunnudag. Verslað var með mat og handverk hvaðanæva af Snæfellsnesi og var mikil aðsókn að markaðnum allan daginn og góð sala. Augljósar framfarir hafa orðið í vöruþróun á markaðnum og var meðal annars hægt að kaupa kjöt af lömbum, ám, nautum, kálfum og geitum bæði reykt, grafið og mismunandi kryddað. Steikur, hakk, bollum, bjúgu voru til sölu og svo mætti áfram telja.
Rabbabaraafurðir var einnig boðið upp á, bæði saltaðar og sultaðar. Auk þess var boðið upp á rabbabarasmjör sem sló í gegn og seldist upp. Egg, reyktur fiskur, kartöflur, rófur, salat og Sæhvönn voru einnig í boði og runnu út. Það var því af nógu að taka og var nauðsynlegt að taka með sér innkaupapoka undir öll herlegheitin.

Næsti markaður á Breiðabliki verður haldinn með jólasniði 26. nóvember n.k.
Þess má geta að Búsæld, sem er verslun með matvöru og handverk frá Snæfellsnesi er opin alla daga 11-15 á Breiðabliki. Snæfellingar eru hvattir til að kynna sér úrvalið þar og framleiðendur sömuleiðis hvattir til að selja vörur sínar þar.

am/frettir@snaefellingar.is/Mynd: Svæðisgarður Snæfellinga