Við hugsum enn, áður en við hendum!

Um þessar mundir eru 10 ár liðin frá því að Stykkishólmur, fyrst bæjarfélaga á Íslandi, hóf sorpflokkun.  En fyrstu sorptunnurnar fyrir þriggja tunnu kerfi voru afhentar íbúum í janúar 2008.  Þremur vikum seinna var fyrsta losun úr þessu kerfi þegar brúna tunnan var losuð og voru þá 2 tonn sem komu til losunar. Fyrst um sinn var brúna tunnan losuð á tveggja vikna fresti allt árið en breyttist svo í mánaðarlega losun yfir vetrartímann og á tveggja vikna fresti á sumrin. Nýjar tölur um losun á brúnu tunnunni á þessu ári liggja ekki fyrir, en í janúar í fyrra, vó brúna tunnan tæp 5 tonn samtals (Tvær losanir).

Margt hefur breyst þessi 10 ár og segir Birgir Kristjánsson hjá Íslenska gámafélaginu að þessi 10 ár hafi fjölmörg sveitarfélög á landinu horft til Stykkishólms í þessum efnum og innleitt þriggja tunnu kerfið sem byrjað var að nota hér. Þessa dagana er Fjarðarbyggð einmitt að taka upp þriggja tunnu kerfið. Aðferðin er þannig komin til að vera og á þessum tíma hafa mörg sveitarfélög litið til Stykkishólms og reynsluna sem hér skapaðist. Erla Friðriksdóttir sem var bæjarstjóri í Stykkishólmi á þessum tíma, segir það minnisstætt að það hafi staðið til að gera þessa tilraun einhversstaðar á landinu en Stykkishólmur verið fyrst bæjarfélaga til að stíga skrefið. Menn hafi nú ekki allir haft trú á þessu og sérstaklega því að fólk gæti lært að flokka!  Annað hefur komið á daginn og finnst mörgum erfitt að flokka ekki t.d. þegar dvalið er í öðrum sveitarfélögum. Birgir hjá Gámafélaginu sagði að vissulega hefðu orðið breytingar á magni á milli ára og milli flokka en ljóst væri að Hólmarar væru duglegir að flokka. Slagorðið sem notað var í kynningum 2008 var Við hugsum áður en við hendum á þannig enn við í dag um íbúa Stykkishólms.

Til gamans eru myndir frá því fyrir 10 árum í myndasafni með þessari frétt og gaman að sjá fólkið, sem sumir eru horfnir á braut á meðan aðrir eru orðnir eldri og jafnvel fullorðnir. Megnið af þessum myndum hefur ekki birst áður.

This slideshow requires JavaScript.