Viðbragðsaðilar með kynningu í Von

1-1-2 dagurinn var haldinn hátíðlegur á síðasta sunnudag en fresta þurfti honum vegna veðurs þann 11. febrúar þegar hann átti að vera. Allir viðbragðsaðilar í Snæfellsbæ tóku að venju þátt í deginum. Hófst hann á því að ekið var í bílalest frá slökkvistöðinni í Ólafsvík og um götur í Ólafsvík, þaðan var ekið út á Hellissand og ekið um götur þar. Bílalestin keyrði svo sem leið lá inn í Rif í björgunarstöðina Von þar sem hátíðarhöld dagsins fóru fram. Í björgunarstöðinni voru allir viðbragðsaðilar með kynningu á starfsemi sinni. Hægt var að fá mældan blóðsykur og blóðþrýsting. Börnin gátu prófað klifurvegginn og boðið var upp á veitingar. Vel var mætt á daginn og voru börnin mjög spennt yfir öllum þessu flottur græjum sem mátti skoða og kíkja inn í. Það er sérlega ánægjulegt að allir þeir viðbragðsaðilar sem í Snæfellsbæ eru skuli gefa sér tíma í að taka þátt í þessum degi og sýni um leið bæjarbúum hvað það er þeir gera og út á hvað starf þeirra gengur.
Landssamband slökkviliðs og sjúkraflutingamanna stendur fyrir eldvarnaviku fyrir jólin á hverju ári. Þeir heimsækja nemendur í 3. bekk fræða þau um eldvarnir og þau taka þátt í getraun. Öll rétt svör á landinu eru svo sett í pott og dregið úr.
Hugrún Birta Sigurðardóttir var ein af þeim sem var dregin út að þessu sinni. Svanur Tómasson slökkviliðsstjóri, Slökkviliðs Snæfellsbæjar afhenti henni verðlaunin á 112 deginum um síðustu helgi.

þa/Bæjarblaðið Jökull