Von á góðum gestum

IMG_0066-310x205Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar heldur tónleika sunnudaginn 20. mars við messu kl. 11 í Stykkishólmskirkju og síðar um daginn á Dvalarheimili aldraðra, Stykkishólmi.

Bjöllukórinn var stofnaður fyrir fjórum árum, eða haustið 2012, og er eini starfandi bjöllukór landsins. Stjórnandi er Karen J. Sturlaugsson, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, en hún var fyrst til að koma með hand-bjöllur til Íslands og setja á stofn bjöllukór, árið 1976.

Bjöllukórinn fékk strax við stofnun fyrir fjórum árum, mjög spennandi verkefni til að stefna að, en það var að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands á jólatónleikum hljóm-sveitarinnar, sem Bjöllukórinn hefur síðan gert árlega og hefur hlutverk hans í samstarfinu við Sinfóníuna farið stækkandi ár frá ári.

Bjöllukórinn hefur komið víðar fram og ferðast m.a. til Bandaríkjanna og tók þátt í bjöllukóramóti auk þess sem kórnum var boðin þátttaka í tónleikum í hinu virta tónleikahúsi New York borgar, Carnegie Hall.

Tónlistarskólinn fékk í upphafi, haustið 2012, lánaðar bjöllur og annan nauðsynlegan búnað, en á þriðja starfsári kórsins hóf skólinn að byggja upp sína eigin hljóðfæraeign og keypti notað bjöllusett frá Hellissandi, þ.e. handbjöllur og nauðsynlegan fylgibúnað. Skólinn hefur síðan þá bætt töluvert við grunn bjöllusettið frá Hellissandi og er settið orðið eitt allra stærsta og fjölbreyttasta bjöllusett landsins.

frettir@snaefellingar.is