Atvinnumálin

Magda Kulinska, skipar 3. sæti L-listans

Ég heiti Magda Kulinska og skipa 3. sæti L-listans. Ég er pólsk að uppruna en hef búið í Stykkishólmi frá 1995. Ég er í sambúð með  Hafþóri Benediktssyni og eigum við tvo syni.   

Nú eru bæjarstjórnarkosningar eftir rúma viku og er gaman að fá tækifæri til að taka þátt í þeim sem frambjóðandi.  Þó ég hafi mikinn áhuga á bæjarmálunum almennt þá hef ég mestan áhuga á atvinnumálum svæðisins. Ég er starfandi yfirkokkur á Fosshótel Stykkishólmi og hef starfað við hótelið í 7 ár. Mitt lifibrauð er því ferðamannaiðnaðurinn og þar hef ég mesta þekkingu. Stykkishólmur er fámennur bær með talsvert fjölbreytta atvinnumöguleika og er það jákvætt að ekki eru öll eggin í sömu körfunni. Mikil aukning hefur verið á störfum í kringum ferðaþjónustuna en það getur verið fljótt að breytast ef við erum ekki framsýn og metum stöðuna reglulega. Okkar stefna  hjá L-listanum er að ráðinn verði markaðs – upplýsinga og menningarfulltrúi í fullu starfi til að við náum að vaxa áfram og séum ekki með minni áherslu á þessa mikilvægu atvinnugrein en önnur bæjarfélög á svæðinu.  Starfsmaðurinn starfi náið með upplýsingamiðstöðinni á Breiðabliki og öðrum markaðsfulltrúum á svæðinu. Aukist hefur að ferðamenn sem koma á Snæfellsnes komi minna til Stykkishólms og stoppi í styttri tíma. Þessu verðum við að snúa við með okkar fallega bæ og náttúru.

Helsta hlutverk bæjarstjórnar í atvinnumálum er að vera hvetjandi og tilbúin til að koma til móts við fyrirtæki sem vilja vera með starfsemi hér í bænum. Við þurfum að verja þau opinberu störf sem eru í bænum og óska eftir fleirum. Bæjaryfirvöld eiga að vera með litla starfsemi en notast frekar við fyrirtæki sem eru með þjónustu hér í bænum og vilja byggja upp sína starfsemi.

Mikilvægast er þó að við stöndum saman um að byggja upp bæinn okkar og fjölga atvinnutækifærum og auka fjölbreytnina.

Magda Kulinska, skipar 3. sæti L-listans