Bókaverzlun Breiðafjarðar flytur um set

Bókaverzlun Breiðafjarðar sem starfrækt hefur verið í gamla apótekinu niðri á Plássi frá því að Heiðrún Höskuldsdóttir og fjölskylda keyptu rekstur Sjávarborgar á sínum tíma hefur nú flust ofar í bæinn. Orðspor verslunarinnar hefur farið víða en góð og hugguleg stemning myndaðist strax og búðin opnaði í Apótekinu. Hefur gesti borið víða að og hafa þær mæðgur Rebekka og Heiðrún einnig stigið það skref að opna vefverslunina kram.is samhliða bókaverzluninni.

Það er eftirsjá af versluninni niðri á Plássi og fækkar þjónustuaðilum þar fyrir almenning til muna en Stykkishólmur Slowly Café hefur einnig flutt sig ofar í bæinn, nánar tiltekið í Leir 7. Verslunin flutti í vikunni í húsnæði Mæðgna&magasín sem hætti í haust og Heimahornið var áður í þessu húsnæði um árabil.
Heiðrún og Rebekka hafa umbylt húsnæðinu með hjálp fjölskyldunnar og er það allt hið glæsilegasta og tækifærin mörg.
Voru viðskiptavinir í sjöunda himni á opnunardaginn en möguleikar eru heilmiklir, m.a. fyrir námskeiðshald og margt fleira. Þær mæðgur hyggjast hafa útsölumarkað í Apótekinu í einhverjar vikur.

am