Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Byggðaþróun og umhverfismál í brennidepli

Byggðaráðstefna Byggðastofnunar var haldin í Stykkishólmi í vikunni þar sem fjöldi framsöguerinda var fluttur og tengdust erindin þema ráðstefnunnar sem að þessu sinni voru byggðaþróun og umhverfismál. Dagskrá ráðstefnunnar dreifðist á tvo daga og voru fyrirspurnir og umræður báða dagana. Vel var mætt á ráðstefnuna og voru erindin áhugaverð að sögn gesta. Ferðaþjónusta, friðlýsing, kolefnisjöfnun, þjóðgarðar og landnotkun var meðal umræðuefna og ýmsar tölulegar staðreyndir, spár og niðurstöður rannsókna lagðar fram í því samhengi. Væntanlega munu gögn og ályktanir af ráðstefnunni verða aðgengileg innan tíðar. Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri sagði m.a. í ávarpi sínu í upphafi ráðstefnunnar: „Öllum er ljóst mikilvægi umhverfisvitundar og sýna umhverfi okkar virðingu og alúð. Með aukinni umhverfisvitund eykst umhyggja einstaklinga gagnvart umhverfinu og staðsetur þá innan umhverfisins, sem þá þátttakanda í órjúfanlegri heild náttúru jarðar, en ekki einungis sem notanda hennar og áhorfanda.

Skýr stefnumótun í Stykkishólmi og á Snæfellsnesinu öllu í umhverfismálum hefur aukið umhverfisvitund okkar á svæðinu og hefur þannig bætt búsetuskilyrði okkar, eflt samfélagið og er rík umhverfisvitun nú stór hluti af okkar menningu. Og hver er ávinningurinn? 

Jú, fjölmargir hafa til dæmis nefnt það við mig hvað þeim finnist bæjarstæðið í Stykkishólmi fallegt, hvað höfnin er falleg  – hvað umhverfið í Stykkishólmi er fallegt. Sömu sögu er eflaust að segja frá öllu Snæfellsnesi. Það hefur ekki gerst af sjálfu sér heldur er það afrakstur stöðugar stefnumótunar með framsýni að leiðarljósi, ekki síst í umhverfismálum. Áherslur á umhverfismál styðja nefnilega einmitt við náttúruna og fegurðina og smitar áhersla á umhverfismál upplifun þeirra sem bæinn sækja. Þessi áhersla á umhverfismál og upplifun þeirra sem svæðið sækja hefur án efa haft mikið að segja í þeirri þróun að nú sækir ungt fólk í að flytja hingað á svæðið og finnst umhverfið og lífið hér aðlaðandi. Það að íbúar hugsi um sitt nærumhverfi gefur svæðinu jákvæða ímynd og hefur gert svæðið að eftirsóknarverðum íverustað bæði fyrir íbúa og aðra gesti.“

Í lok ráðstefnunnar ávarpaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson fundinn og hætti við áður skrifað ávarp fyrir þennan fund en talaði út frá umræðuefni dagsins um friðlýsingar og málefni þeim tengd, en þrír af fyrirlesurum ráðstefnunnar voru helstu viðmælendur þáttarins Kveiks á þriðjudagskvöldið á RÚV um friðlýsingar. Fram kom í máli ráðherra að friðlýsingum sem fyrir lá að gera fyrir allmörgum árum í tengslum við rammaáætlun hafi ekki verið staðið við og bragarbót yrði gerð í þeim málaflokki á vettvangi ráðuneytisins. Svipað kom fram í máli ráðherra á opnum fundi VG hér í Stykkishólmi fyrir stuttu og við sögðum frá í Stykkishólms-Póstinum í byrjun október.

am/frettir@snaefellingar.is