Efling heimaþjónustu sveitarfélaganna

Eitt af þjónustusviðum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga er rekstur heimaþjónustu í aðildarsveitarfélögum byggðasamlagsins.  Markhópar þjónustunnar eru eldri borgarar, öryrkjar og aðrir þeir sem þurfa á slíkri þjónustu að halda.  Í kjölfar umsókna fer fram þjónustumat á aðstæðum umsækjenda.  Eldri borgarar eru stærsti þjónustuhópurinn og fjölgar þeim milli ára.

Eitt af þjónustusviðum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga er rekstur heimaþjónustu í aðildarsveitarfélögum byggðasamlagsins.  Markhópar þjónustunnar eru eldri borgarar, öryrkjar og aðrir þeir sem þurfa á slíkri þjónustu að halda.  Í kjölfar umsókna fer fram þjónustumat á aðstæðum umsækjenda.  Eldri borgarar eru stærsti þjónustuhópurinn og fjölgar þeim milli ára.

Að vonum vilja langflestir þeirra  búa á eigin heimilum meðan heilsa og aðrar kringumstæður leyfa.  Stefnumótun opinberra aðila, sveitarfélaga og ríkis, lýtur að því að hvort tveggja félagsþjónusta sveitarfélaga og heilbrigðisstofnanir ríkisins hagi þjónustu sinni þannig að hún styðji við búsetu eldri borgara á eigin heimilum meðan þeir geta enda sé það ósk þeirra og val.

Sveitarfélögin hér á Snæfellsnesi hafa því starfrækt heimaþjónustu við þennan hóp auk öryrkja og annarra þeirra sem af e-m ástæðum þurfa á þessari þjónustu að halda.  Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga hefur á undanförnum misserum endurskoðað framkvæmd þessarar þjónustu.  Aðildarsveitarfélögin hafa nú samþykkt tillögu FSS að breyttu fyrirkomulagi þessarar mikilvægu þjónustu við íbúana.  Megininntak og markmið þessara breytinga er eftirfarandi:

Í byrjun nóvembermánaðar  n.k. öðlast gildi nýtt fyrirkomulag  heimaþjónustu sveitarfélaganna, Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar, Snæfellsbæjar og Stykkishólmsbæjar.

Markmið breytinganna er þríþætt:

•Fjölþættari   þjónusta sveitarfélaganna við aldraða, öryrkja  og sjúka

•Efling umönnunar og öryggis  þjónustuþega

•Styrking starfsfólks sveitarfélaganna við framkvæmd mikilvægra trúnaðarstarfa

Leiðir að þessu markmiði felast í:

•Auknum sveigjanleika í skipulagi og tíðni veittrar þjónustu

•Fjölbreyttari þjónusta;  auk þrifa verður persónuleg aðstoð í boði auk innlits um hagi og líðan þjónustuþega.

•Formlegu samstarfi og samráði við starfsfólk heimahjúkrunar Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.

•Starfseflingu þeirra er þjónustuna veita með  þátttöku þeirra í undirbúnings- og eftirfylgninámskeiðum; bættari starfskjörum- og aðbúnaði; heilsársstörfum, ýmist í heilum eða hálfum stöðugildum í hverju sveitarfélagi fyrir sig

•Skilvirkari stjórnun  og eftirliti

•Góðri sátt og samvinnu við þjónustuþega

•Samþykki þjónustuþega fyrir flutningi almennra upplýsinga um hagi þeirra og aðstæður milli starfsmanna FSS og heimahjúkrunar Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.

Um þessar mundir eru birtar auglýsingar FSS eftir starfsfólki til að gegna þessu þýðingamikla starfi.  Stofnunin fékk fyrr á árinu kr. 400.000 styrkveitingu úr Gæðaverkefnasjóði Velferðarráðuneytisins vegna endurskipulagningar heimaþjónustunnar.  Fjárhæðinni verður varið til starfseflingar starfsmanna heimaþjónustunnar með undirbúnings- og eftirfylgninámskeiðum sem Símenntunarmiðstöð Vesturlands hefur búið úr garði og annast.

Það er von okkar og vissa  að breyting þessi leiði til betri þjónustu sveitarfélaganna.

Um leið verða til ný og spennandi  umönnunarstörf hér á Snæfellsnesi.

Undirritaður, f.h. sveitarfélaganna og starfsmanna FSS, óskar góðs samstarfs við  stjórnendur og starfsfólk heimahjúkrunar Heilbrigðisstofnunar Vesturlands,  þjónustuþega og aðra hlutaðeigandi um  innleiðingu og framkvæmd þessara breytinga að leiði til aukinnar velferðar   íbúanna.

Sveinn Þór Elinbergsson, forstöðumaður  FSS