Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Fiskisúpa tengdó að hætti Breiðfirðingsins

Þakka Jóni Sindra fyrir áskorunina. En hér kemur uppskrift af fiskisúpu sem ég smakkaði first hjá Hrafnhildi tengdamömmu. Hún er upprunalega, að ég held að norðan eins og Emil Þór eldri. Hún hefur svo aðeins verið útfærði og aðlöguð að smekk Breiðfirðingsins.

30 gr. smjör
50 gr. laukur
50 gr. paprika (gul, rauð og græn)
40 gr. sveppir
50 gr. sellery ( má sleppa)
2 dl. súrsæt sósa
2 hvítlauksgeirar (má sleppa)
20 gr. karrý (má vera minna eftir smekk)
40 gr. tómatmauk (úr dós)
1 líter rjómi
2 dl. mysa/hvítvín
Aromat eða fiskikraftur eftir smekk.
20 gr. Fannel (má sleppa)
100 gr. hörpufiskur
50 gr. rækjur
150 gr. humar (skötuselur)
Ýsa – skorin í bita (teninga)
Lúða – skorin í bita
Annar fiskur eftir smekk

1. Bræðið smjörið í potti, setjið karrý og saxaðan laukinn útí og látið krauma.
2. Saxaðir sveppir (marinn hvítlaukur) sellery, paprika, sett útí – látið krauma vel.
3. Súrsæta sósan og tómatamauk sett samanvið og látið hitna vel. Súrsæta sósan og tómatmaukið eru einkennandi fyrir bragð súpunar og því gott að bæta við meira allt eftir smekk hverss og eins. Það er þó betra að bæta meiru út í eftir að rjóminn hefur verið settur út í.
4. Næst mysa eða hvítvín (mæli með Rosemount GTR, létt og sætt) og rjóminn sett útí og hitað í 4-5 mín. (ekki sjóða).
5. Fiskurinn settur saman við og suðan látin koma upp. Muna að sumar fiskitegundir þola minni suðu en aðrar og því gott að enda á þeim. Lykilatriði að ofhita ekki fiskinn.
6. Borið fram með smábrauðum og ekki verra að drekka restina af hvítvíninum með, fyrir þá sem þola það.

Þið getið látið ykkur hlakka til næsta blaðs því þá mun veislukokkurinn Erla Björg Guðrúnardóttir (Erla í Marz) opna fyrir okkur sína uppskriftabók.

 

Magnús Ingi Bæringsson