Framhaldsskólahermir í FSN

Sl. föstudag var nemendum 10. bekkja grunnskólanna á Snæfellsnesi boðið að taka þátt í framhaldsskólahermi í FSN.

Nemendurnir, sem margir hverjir eru tilvonandi nemendur skólans, tóku þátt í kennslustundum og fengu kynningu á störfum nemendafélagsins. Hermirinn er þannig uppbyggður að þeir sem hann sækja verða virkir þátttakendur í skólalífinu frekar en að sitja undir fyrirlestrum.

Hugmyndin kemur frá Háskólahermi Háskóla Íslands en þangað mæta nemendur á lokaári framhaldsskóla og fá að taka virkan þátt í háskólastarfinu.

Nemendur frá FSN hafa sótt þann hermi og hefur það m.a. hjálpað þeim að átta sig á hvað þau vilji læra að framhaldsskóla loknum. Einnig hafa sumir prófað námsbrautir í herminum sem þau voru ekki viss með og áttað sig á að áhugasviðið lægi annarsstaðar.

Dagurinn tókst í alla staði vel og kynntust nemendur framtíðarskólanum sínum ögn betur.