Framkvæmdir við hjúkrunarrými af stað í haust?

Sigurður Páll Jónsson þingmaður Miðflokksins í NV kjördæmi
Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra

Eins og sagt var frá í síðasta Stykkishólms-Pósti þá þokast málefni sjúkra- og dvalarrýma í rétta átt. Í samtali Stykkishólms-Póstsins við bæjarstjóra kom fram að samningar væru á lokastigi. Í upphafi þessarar viku steig Sigurður Páll Jónsson þingmaður Miðflokksins í NV kjördæmi í pontu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi og lagði fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra Svandísar Svavarsdóttur. Fór Sigurður yfir sögu málsins sem nær aftur til ársins 2012 þegar viljayfirlýsing var undirrituð milli þáverandi ráðamanna um verkefnið sem ekki náði fram að ganga sökum kostnaðar. 2014 var málið endurvakið hér í Stykkishólmi og lagt upp með herbergi 27 fermetra að stærð. Þannig verða rýmin 18 hjúkrunarrými og 2 dvalarrými. Sigurður sagði málið á borði heilbrigðisráðherra nú og spurði hvar það væri statt í dag. Í svörum ráðherra segir: „Ánægjulegt er frá því að segja að um þetta er búið í nýrri fjármálaáætlun eins og hún er lögð fram fyrir þingið. Ég vænti þess að fjármagnið sem um ræðir sem þarf til að breyta þessum rýmum, þ.e. sjúkrarýmunum, verði til þess að geta síðan ráðist í hjúkrunarrýmahlutann og að hægt verði að fara í þetta af fullum krafti árið 2020 og svo 2021.

Málinu á að ljúka þannig að hægt sé að fara strax af stað með hitt vegna þess að um restina verði búið í fjármálaáætlun.“ Sigurður fór aftur í pontu: „Erum við að tala um að vinna hefjist á þessu ári, á komandi hausti? Ég var að leita í fjármálaáætluninni en gat ekki séð neitt sem var sérstaklega merkt þessu verkefni en það er gleðilegt ef svo er. Eins og ráðherrann kom inn á er þetta mál búið að vera í gangi síðan 2012. Eldri borgarar í Stykkishólmi búa í 12–14 m² kytrum sem eru á undanþágu, þar er músagangur og ekki mönnum bjóðandi.“ Svandís svarar: „Háttvirtum þingmanni til aðstoðar er þessi fjárhæð væntanlega merkt Heilbrigðisstofnun Vesturlands og þá er um að ræða í raun og veru sjúkrahúshlutann en eins og háttivirtur þingmaður bendir á er það fjármagn sem hefur verið eyrnamerkt hjúkrunarheimilinu eða hjúkrunarrýmunum í raun og veru til ráðstöfunar en það var ekki hægt að hefjast handa við úrvinnslu á því fé fyrr en hitt lægi fyrir þar sem þetta tengist eins og hv. þingmaður fór yfir í fyrirspurn. Samkvæmt mínum skilningi er ekkert því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir hvað það varðar síðar á þessu ári eða snemma á því næsta, að því gefnu að Alþingi afgreiði fjármálaáætlun.“

am/frettir@snaefellingar.is