Háls- og bakdeild – full ástæða til bjartsýni

 

Eins og áður hefur komið fram stendur yfir stefnumótun vegna starfsemi Háls- og bakdeildar í Stykkishólmi.
Í ágúst, þegar ljóst var að ekki næðist samkomulag milli framkvæmdastjórnar og Jóseps Blöndal um áframhaldandi störf við stofnunina sem byggðist á tímabundnum samningi, stóðum við frammi fyrir því hvort opna ætti Háls- og bakdeildina á tilsettum tíma eða ekki. Stuttur tími var til stefnu og mikilvægt að deildin bæri ekki skaða af þeirri óvissu sem fylgt gæti læknaskorti, á þeim grundvelli var ákveðið að opna deildina á tilsettum tíma. Jafnframt var ákveðið að fara í stefnumótun sem undirrituðum var falið að stjórna. Við samykktum að taka að okkur verkefnið með þeim fyrirvara að framkvæmdastjórn HVE stæði við bakið á okkur.
Það hefur gengið eftir og stendur framkvæmdastjórn einhuga á bak við stefnumótunarvinnuna og þær hugmyndir sem við höfum lagt fyrir hana. Framkvæmdastjórnin hefur meðal annars samþykkt aukið stöðuhlutfall sjúkraþjálfara við deildina en umsóknarfestur um stöðuna rennur út 15/11. Einnig er í auglýsingaferli staða yfirlæknislæknis deildarinnar, og hafa komið fyrirspurnir um báðar stöðurnar.

Það var áskorun að taka að sér verkefnið undir þessum kringumstæðum og í byrjun miðaði vinna okkar eingöngu að því að tryggja starfsemi deildarinnar á nýjum forsendum og leysa þau viðfangsefni sem þeim fylgdi. Nú þegar það er í höfn höfum við snúið okkur að framtíðarstefnumótun fyrir deildina og hefur sú vinna farið vel af stað.
Framtíðarsýnin miðar að því að tryggja þann gæðastaðal sem deildin er þekkt fyrir og einkennt hefur hana frá upphafi og að hún verði áfram leiðandi afl í meðferð háls- og bakverkja.

Samheldinn hópur fagteymis Háls- og bakdeildar vinnur nú sem áður, mikilvægt starf með skjólstæðingum sínum sem áfram treysta á meðferð Háls- og bakdeildar. Meðferðin byggist eins og áður að mestum hluta upp á sérhæfðri meðferð sjúkraþjálfara. Samið hefur verið við Bjarna Valtýsson, svæfingalækni og sérfræðing í verkjameðferð um aðkomu að þeim hluta meðferðarinnar sem snýr að læknisfræðilegum inngripum s.s. sprautumeðferð, mat sjúklinga inn á deildina og fleira. Verður sá samningur endurskoðaður um áramót og ætti þá að liggja fyrir hvert deildin stefnir og hvaða faglega mannafla hún hefur á þeim tíma.

Vissulega hefði verið ákjósanlegt að brotthvarf Jóseps Blöndal frá deildinni hefði borið að með öðrum hætti en raun bar vitni og sárt að sjá á eftir góðum starfsfélaga, sem hefur lagt mikið og óeigingjarnt starf af mörkum við uppbyggingu Háls- og bakdeildar SFS. Það má þó ekki gleyma því að stærsti hluti meðferðarinnar er á hendi fagteymis hennar en innan þess liggur mikil þekking og reynsla. Á þeirri þekkingu höfum við byggt stefnumótunarvinnu okkar með það að markmiði að efla deildina og styrkja inná við og um leið efla tengsl hennar við aðrar fagstéttir og stofnanir sem vinna með einstaklingum með langvinna bakverki og tryggja þannig þróun og starfsemi deildarinnar í nútíð og framtíð.

Hrefna Frímannsdóttir, faglegur ábyrgðaraðili Háls- og bakdeildar og Hafdís Bjarnadóttir, samskiptafulltrúi.