Íslandsmeistararnir sterkir

Snæfell hélt í Garðabæinn í dag þar sem liðið mætti Stjörnunni í úrvalsdeild kvenna.  Snæfell vann fyrri leik liðanna í haust, í Stykkishólmi, naumlega 95-93 með flautukörfu frá Bryndísi Guðmundsdóttur.  Það mátti því vænta spennandi leiks í dag en Íslandsmeistararnir hafa heldur betur verið að sýna klærnar í síðustu leikjum og farið að glitta á ný í þeirra aðal styrkleika, sterka liðsheild og leikgleði.  Snæfellsstelpurnar voru einfaldlega mun sterkari aðilinn í dag og unnu sannfærandi sigur 64-83, sigur sem fyrst og síðast var unninn og lagður með sterkri liðsheild þar sem bæði byrjunarliðið sem og bekkurinn skilaði fínu framlagi.  Þessi sterka liðsheild skilaði, sérstaklega í síðari hálfleik, frábærri vörn og góðu flæði í sóknarleiknum sem skapaði opin færi  og þ.a.l. góð skot.  Tölfræðin var enda frábær á köflum ekki síst í þriggja stiga skotunum, þó heldur hafi hún lækkað þar þegar fjórir þristar klikkuðu í röð í seinni hálfleiknum.  En Rebekka Rán skilaði reyndar öllum sínum fjórum þristum rétta leið.  Snæfellsliðið sem heild átti góðan leik og  Haiden Palmer þó fremst í flokki, var frábær.  Hún hefur líkt og Snæfellsliðið allt farið vaxandi með hverjum leiknum og fellur afar vel í þann sterka liðsanda sem Snæfellsliðið, ekki síst þjálfarar og þeir sem halda utan um liðið, hafa byggt upp undanfarin ár. Það er án vafa að þessi sterka liðsheild á stóran þátt í því hve erlendu leikmenn Snæfells hafa leikið vel með liðinu. Hún hefur án vafa gert góðan erlendan leikmann enn betri, ekki síst sem liðsmann.

Íslandsmeistararnir hafa leikið þétt undanfarið, fimm leiki frá lok október og það hefur reynst liðinu vel þar sem hópurinn æfir tvískiptur í Reykjavík og Hólminum.  Þétt leikjaröð hefur því virkað vel til að spila liðið betur saman.  En nú kemur hinsvegar smá pása í deildinni sökum leikja landsliðsins í undankeppni EM.  Snæfell á þrjá fulltrúa í æfingahópnum fyrir þau verkefni, þ.e. Berglindi Gunnarsdóttur, Bryndísi Guðmundsdóttur og Gunnhildi Gunnarsdóttur.  Fyrsti leikur Snæfells eftir þá pásu er heimaleikur gegn toppliðinu, Haukum 29.nóvember.  Það hefði verið fínt fyrir Snæfellsliðið að mæta Haukunum í þessu „runni“ en vonandi halda Snæfellsstelpurnar áfram á þeirri braut sem þær eru nú eftir landsleikjahléið, þá vinna þær Haukaliðið.

Tölfræði leiksins í dag er hér.