Snæfell á toppinn

Íslandsmeistarar Snæfells tylltu sér í efsta sæti úrvalsdeildarinnar með góðum sigri 75-65 á Haukum í gær.  Það var ljóst fyrir leikinn að um hörkuleik yrði að ræða, Haukaliðið taplaust í deildinni og Snæfellsliðið búið að vera á miklu skriði fram að landsleikjapásunni.  Það var spurning hvernig liðin kæmu stemmd til baka, Snæfellsliðið var þó meira spurningamerki eftir að hafa misst út fyrirliða sinn Gunnhildi Gunnarsdóttur fyrir leikinn,  vegna meiðsla sem hún varð fyrir í landsleiknum gegn Slóvakíu.  Gunnhildur hefur þrátt fyrir meiðsli fyrripart móts, verið í stóru hlutverki í liði Snæfells, með 14,1 stig,  4,3 fráköst og 15 stig í framlag að meðaltali í leik.  Það var því skarð fyrir skildi en Snæfell hefur sýnt það ítrekað undanfarin ár að í liðinu býr ótrúleg seigla og þó lykilleikmenn detti út þá nær liðið að þjappa sér saman og halda sínum styrk og vinna leiki sem vafalaust margir aðrir en þær sjálfar og þjálfarateymið hafa talið tapaðir fyrirfram.  Sigurinn á Haukum var þó svolítið úr karakter hjá Snæfelli, sóknarlega því þar var einstaklingsframtakið framar liðsheildinni.  Það var kannski eðlilegt því Haiden Palmer fór algjörlega hamförum og reyndist Haukum óviðráðanleg.  Haiden endaði í 43 stigum og þar af voru 16 stig skoruð af vítalínunni í einungis átján skotum, þá tók hún 14 fráköst og var með 5 stoðsendingar.  Það var visst áhyggjuefni hve fyrirferðamikil hún var í sóknarleik Snæfells frameftir leiknum því það vill verða til þess að aðrir leikmenn verði staðir og eigi erfitt með að taka við keflinu þegar þrekið fer að dvína og draga fer úr hamförunum.  En Haiden hélt að mestu út, þó skotunum sem ekki rötuðu rétta leið hafi fjölgað,  þá urðu stigin samt 14 í leikhlutanum.  Ingi tekur hana þó væntanlega á séræfingu í sniðskotunum hægra megin.

En þó einstaklingsframtak Haiden hafi verið mikið í sókninni þá var grunnurinn að sigrinum lagður með sterkri liðsheild í vörninni.  Varnarleikur Snæfells var mjög góður á heildina litið og var þéttur leikinn út og liðið herti fremur tökin þegar líða fór á og skellti svo alveg í lás á lokamínútunum.  Það þarf góðan varnarleik til að halda jafn öflugu liði og Haukaliðið er við 15 stigin í öllum leikhlutum og það án mikilvægs hlekks í vörninni sem Gunnhildur er.  Það var einungis í þriðja leikhlutanum að Haukar náðu 20 stigum en Snæfellsstúlkur lokuðu fyrir þann leka og hertu varnartökin á ný og héldu Haukstúlkum í 14 stigum í lokaleikhlutanum sem Snæfell vann með tíu stiga mun 24-14.  Í lokaleikhlutanum voru Snæfellsstelpurnar þéttari en Haukar og fleiri komu inn í sókninni, ekki síst Bryndís Guðmundsdóttir sem átti tvær mikilvægar körfur þegar Snæfell var að slíta sig frá Haukunum.  Helena skoraði þrjú síðustu stig Hauka, minnkaði munin í tvö stig 66-64 og fékk svo víti að auki sem hún skoraði úr og staðan því 66-65.  Bryndís svaraði því hinsvegar strax hinumegin með þristi og þar með var munurinn kominn í fjögur stig á ný 69-65 og þó enn væru tvær mínútur eftir af leiknum þá var eins og slökknaði á Haukum þarna og Snæfell skoraði sex síðustu stig leiksins og lokatölur því 75-65.

Sem sagt fínn sigur, þó liðið hafi oft leikið betur sóknarlega þar sem einstaklinsframtakið var óvenju stórt og tapaðir boltar ansi margir. Haiden dró vagninn en Bryndís, Hugrún sem er orðin ein af lykilleikmönnum liðsins og María, áttu allar fínan leik.  Berglind hefur oft skorað meira en hún vann það upp á öðrum sviðum þannig að hún skilaði sínu í framlagi. Haukastúlkur áttu í vandræðum með sterkan varnarleik Snæfells.  Þær höfðu mikið fyrir sínum sóknum og skottilraunum. Fengu mun fleiri skottilraunir en Snæfell þ.e. 84 á móti 65 en ekki úr opnum færum og nýtingin því betri hjá Snæfelli og frákastabaráttuna vann Snæfellsliðið afgerandi.  Helena og Pálína voru öflugastar og Silvía Rún kom mjög sterk seinni hálfleik. En Haukaliðið átti í erfiðleikum með að stöðva Haiden og oft endaði hún á vítalínunni eins og áður er getið og nýtti þau skot vel sem og Snæfellsliðið sem fékk alls 28 vítaskot og hitti úr 23 þ.e. 82% nýting.  Það er mjög gott þó Haukastelpurnar hafi toppað það voru með 100% nýtingu en þær fengu hinsvegar aðeins tvö vítaskot.

Snæfell er því komið í toppsæti úrvalsdeildarinnar 16 stig þ.e. átta sigra og eitt tap.  Haukar eru með 14 stig en leik færra en komast þó ekki upp fyrir Snæfell vinni liðið þann leik sem það á inni því Snæfell er með betra stigahlutfall í innbyrðisviðureignum liðanna, vann leikinn í gær með tíu stigum 75-65 en tapaði fyrri leik liðanna 62-66.

Tölfræði leiksins hér

Staðan í deildinni hér.