Snæfell út og áfram í bikar

Snæfellspiltar féllu út úr bikarkeppninni í gær eftir stórtap 45-89 gegn Haukum.  Eins og sést á tölunumog ekki síst framlagstölum leikmanna þá var Snæfellsliðið langt frá þeirri frammistöðu sem það hefur sýnt í síðustu leikjum deildarinnar.   En nú er bikarinn búinn hjá karlaliðinu sem getur þá einbeitt sér að deildinni og nóg af leikjum eftir þar til að  bæta leik liðsins.  Snæfell hefur unnið síðustu tvo leik sína í deildinni og vonandi ná menn að hrista af sér bikarslenið og mæta stemmdir í næsta leik sem verður nú á fimmtudaginn 5.nóv., gegn Keflavík.  Snæfellspiltar sýndu mikla baráttu þegar þeir skelltu toppliði Grindavíkur í síðustu umferð og það á útivelli.  Með sigri Snæfells náði Keflavíkurliðið toppsætinu en það hefur ekki tapað leik í deildinni og situr eitt á toppnum eftir fjórar umferðir.  Leikmenn Keflavíkur mæta því vafalaust nokkuð brattir til leiks ekki síst eftir þenna slaka bikarleik Snæfells.  En vonandi ná Snæfellspiltar vopnum sínum og baráttuanda til að halda áfram sigurgöngu sinni í deildinni.

Kvennalið Snæfells er hinsvegar áfram í bikarnum og í hádeginu var dregið í 16 liða úrslit hjá þeim.  Hildur Sigurðardóttir var önnur tveggja sem sáu um að draga í viðureignirnar dró heimaleik fyrir Snæfell sem mætir 1.deildar liði Breiðabliks.  Það gæti orðið skemmtileg viðureign, leikmenn þessara liða þekkjast vel því sá hluti Snæfellsliðsins sem æfir fyrir sunnan, æfir með Breiðabliki.  Leikir 16 liða úrslitanna munu fara fram dagana 5.-7.desember.

Sjá má allar viðureignir 16 liða úrslitanna á vef KKÍ.