Þriðjudagur , 21. ágúst 2018

Stykkishólmur, nafli alheimsins?


Barnamenningarhátíð stendur yfir í Stykkishólmi þessa vikuna í tengslum við afmæli Leikskólans í Stykkishólmi, sem fagnar 60 ára afmæli n.k. laugardag. Fjölmargir viðburðir eru í gangi alla vikuna bæði á leikskólatíma og eins eftir að leikskóla lýkur.

Fyrsti viðburður vikunnar var fyrirlestur undir heitinu Heimurinn er hér, þar sem Fríða Bjarney Jónsdóttir verkefnisstjóri fjölmenningar á Skóla- og fríðstundasviði Reykjavíkurborgar tengdi á mjög áhugaverðan hátt fjölmenningu við Stykkishólm. Í fyrirlestri hennar kom m.a. fram að það má þakka nunnunum sem hingað komu í upphafi að leikskóli var stofnaður hér í bæ. Ýmis önnur áhrif hafa innflytjendur haft hér í gegnum tíðina og má þar nefna dönsku embættismennina á 19. öldinni.
Við sjáum áhrifin út um allt. Við upplifum það að fjölskyldur eru fjölbreyttar og staðalímyndir hafa þróast.

Hnattvæðingin hefur og gert það að verkum að heimurinn er nánast eins og eitt stórt þorp, aðgengi að ólíkum menningarheimum er þannig að ferðalög eru auðveld og tæknin leyfir okkur að fylgjast með og njóta menningar hvaðan sem er. Börn sem hingað koma utan úr heimi og setjast hér að njóta réttinda eins og íslensk börn en Ísland hefur staðfest það með aðild sinni að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Á síðast ári voru fleiri sem fluttu frá landinu en til þess. Þannig býr tólfti hver Íslendingur erlendis. En hvernig tökum við á móti nýjum íbúum t.d. í Stykkishólmi? „Ja, ég er sko ekki með fordóma!“ gætu við velflest sagt eða hvað? En gefum við okkur eina mynd af einstaklingum t.d. frá ákveðnum svæðum í heiminum? Reynum við markvisst að kynnast hverjum og einum eins og hann er? Rannsóknir hafa sýnt að 90% fólks erlendum uppruna á Íslandi upplifir 1 sinni eða oftar fordóma á tveggja vikna tímabili. Við fæðumst fordómalaus, en hvað svo? Talið er að fyrstu 10 vikurnar á nýjum stað skipti höfuðmáli þegar fólk flyst á milli staða.

Getum við sagt hér í Hólminum að við tökum á móti nýjum íbúum með opnum örmum, innlendum sem erlendum? Hverjir hafa vægi og á hverja er hlustað? Í lýðræðisríki þurfa borgararnir að búa við mannréttindi og ráða öllum meiriháttar málum sínum sameiginlega. Forsenda lýðræðis er samábyrgð, með-vitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær. Hver eru grunngildi samfélagsins að okkar mati? Hverjir eru velkomnir og hverjir tilheyra samfélaginu?
„Það þarf heilt þorp til að ala upp barn“ – viðhorf okkar, orðræða og samskipti hafa áhrif á þroska barna og það er mikilvægt að varast alhæfingar um einstaklinga og fjölskyldur.

Vinnum gegn staðalmyndum í skólastarfi og samfélagslegri umræðu og leitum leiða til að bjóða alla velkomna, hvort sem það er í leikskólann, á vinnustaðinn eða í vinahópinn.
Ábyrgð stjórnenda og yfirvalda á hverjum stað mikilvæg – þeir eru fyrirmyndirnar og skapa staðarmenninguna. Foreldrar og kennarar eru fyrirmyndir barnanna – hlutverk þeirra er að vinna gegn staðalmyndum og neikvæðum viðhorfum. Um leið og við bjóðum nýja Hólmara velkomna hikum við ekki við að vera stolt af eigin menningu og miðlum henni á fjölbreyttan hátt.

Þetta var m.a. það sem Fríða fjallaði um í sínum fyrirlestri og átti vissulega erindi til fleiri en þeirra 13 sem komu.
Vert er að minna á það að allir viðburðir á barnamenningarhátíðinni eru ókeypis og að allir eru velkomnir.