Úr fundargerðum

Tvær fundargerðir bæjarstjórnar Stykkishólms hafa komið á vef Stykkishólmsbæjar frá útgáfu síðasta Stykkishólms-Pósts. Eins og greint var frá í síðasta blaði þá var fyrirhuguð undirritun við Velferðarráðuneytið s.l. fimmtudag um hjúkrunarrými á St. Fransiskusspítala. Undirritun fór fram og eru meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.

Í fundargerð bæjarstjórnar frá fundi 15. maí segir að um samkomulag sé að ræða milli Stykkishólmsbæjar og Velferðarráðuneytisins um uppbyggingu og um leið breytingu á hluta húsnæðis sjúkrahússins fyrir hjúkrunarheimili. Gert er ráð fyrir 18 rúma hjúkrunarheimili þar af 4 dagdvalarrúmum og 4ra rúma sjúkradeild. Rúmafjöldi þessi bætist við 15 rúm Háls- og bakdeildar sem fyrir voru.  Skv. heimasíðu HVE þá eru fyrir á 2.hæðinni 6-8 rúma legudeild þar af 3 hjúkrunarrými. Skv. upplýsingum Stykkishólms-Póstsins þá verður nýjum hjúkrunarýmum hjúkrunarheimilis komið fyrir á 2. og 3. hæð hússins. Starfshópur sem skipaður hefur verið um framhald málsins tekur nú við undirbúningi auk þess sem Alþingi þarf að veita fjármunum á fjárlögum í verkið.

Í fundargerð  bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar kemur fram að þess sé vænst að bæjarsjóður breyti núverandi húsnæði Dvalarheimilisins í leiguíbúðir fyrir aldraða ásamt þjónustumiðstöð fyrir heimaþjónustu aldraðra. Fram kemur einnig í fundargerðinni að þannig sé framtíðarþjónusta við aldraða í Stykkishólmi tryggð auk framtíðar St. Fransiskusspítala. Ljóst er af framanrituðu að talsverðar breytingar verða á starfsemi spítalans.

Langar bókanir um ársreikning og fjármál Stykkishólmsbæjar er einnig að finna í fundargerð fundarins og eru bókanir frá meirihluta og minnihluta um það og sýnist sitt hverjum. Minnihluti sat hjá við afgreiðslu ársreikningsins.

Síðasti fundur bæjarstjórnar þetta kjörtímabil var haldinn 22. maí s.l. meðal efnis á þeim fundi voru m.a. erindi um skuldir Stykkishólmssafnaðar við Stykkishólmsbæ. Skuldirnar eru tilkomnar árið 1999 þegar Stykkishólmsbær tók yfir lán safnaðrins við Búnaðarbanka Íslands og Lífeyrissjóð Vesturlands. Til stóð að gjaldfæra lánið í bókum Stykkishólmsbæjar frá árinu 2004 og næstu 7 ár á eftir, þó stóð skuld safnaðarins við bæinn í rúmum 2,5 milljónum króna nú í maí. Stykkishólmssöfnuður verður skv. upplýsingum frá bæjarstjóra  ekki krafinn um greiðslu og er skuldlaus við Stykkishólmsbæ.

Annað erindi sem tekið var til afgreiðslu á fundinum var endurnýjun samnings um ræktunarlandið Selskóga við Nesvog. Samningur er gerður um leigu lands eingöngu til ræktunar og beitarnota. Mörkun landsins er breytt í samræmi við aðalskipulag bæjarins og er samningur uppsegjanlegur með 12 mánaða fyrirvara af beggja hálfu.

Gistiheimili við Laufásveg er einnig til umræðu og samþykkt að mæla með útgáfu rekstrarleyfis þess.

Þar með hefur bæjarstjórn þessa kjörtímabils lokið störfum sínum með formlegum fundum.

am/frettir@snaefellingar.is