Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Aspassúpa og Birnubrauð


Takk fyrir þessa óvæntu áskorun Þóra, mikið hrikalega var grænmetislasagnað gott! Ég ætla að deila með ykkur uppskrift af súpu og brauði. Birnubrauðið fékk nafnið frá dóttur minn, Hafdísi Birnu.

Súpa
75 gr. smjör
100 gr. hveiti
1 dós aspas (411 gr.)
5 dl vatn
2 dl rjómi
1 kjúklingateningur
1 grænmetisteningur
salt
pipar

Aðferð: Opnið bjórinn, lykillinn er að góðum mat er að njóta þess að vera í eldhúsinu. Bræðið smjörið í potti og setjið hveitið saman við, hrærið saman í fallega smjörbollu. Hellið aspassafanum rólega útí og hrærið á milli. Bætið vatninu og rjómanum við og hrærið. Setjið aspasinn og teningana útí, látið sjóða um stund og bragðbætið með salt og pipar eftir smekk. Súpan ætti að vera tilbúin um svipað leyti og bjórinn klárast.

Birnubrauð
2 bollar fínt hveiti (uppskriftin miðar við Moominbolla)
½ bolli gróft hveiti
2 tsk salt
1 msk sykur
1 bréf ger (12 gr.)
dass af þurrkaðri basiliku
2 msk olía
200 gr. vanilluskyr
¾ bolli vatn (eða eins og þarf)

Aðferð: Opnið bjórinn. Þurrefnin hrærð saman í skál. Olíu, skyri og vatni bætt við og hrært saman. Hnoðið deigið, mótið brauð og leggið á plötu. Penslið brauðið með eggi eða mjólk og stráið basiliku yfir. Látið hefast í a.m.k. 45 mín. Bakið við 200 gr. Í c.a 15 mín.

Ég ætla að halda þessu innan fjölskyldunnar og skora á veislukokkinn og mág minn, Magga Bærings, að koma með næstu uppskrift.

Jón Sindri