Blómkálssúpa og orkukúlur

Takk kærlega fyrir áskorunina, mamma mín. Mikið er gaman að fá að skrifa loksins í bæjarblaðið okkar góða.
Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að meinhollri og einfaldri blómkálssúpu ásamt ljúffengum súkkulaði-döðlukúlum (einnig meinhollar) sem renna ljúft niður með kaffibollanum.

Blómkálssúpa fyrir 8:
3 matskeiðar ólívuolía
1 miðlungsstór laukur
1 haus af fersku blómkáli (ca. 500-700gr)
5,5 bollar vatn (skipt upp, sjá í aðferð)

Aðferð:
1. Hitið ólívuolíuna í potti eða djúpri pönnu. Svitið/léttsteikið laukinn í ólívuolíunni á lágum hita í u.þ.b. 15 mínútur.
2. Bætið blómkálinu út í, saltið aðeins og hellið hálfum bolla af vatni yfir. Hækkið hitann, setjið lokið á pottinn og sjóðið blómkálið í 15 mínútur, þar til mjúkt. Takið lokið af, bætið restinni af vatninu út í og látið sjóða þannig í 20 mínútur í viðbót.
3. Næsta skref er að mauka súpuna þar til hún verður silkimjúk, látið súpuna svo standa í 20 mínútur. Þannig tekur hún sig og þykknar.
4. Ef ykkur finnst hún of þykk getið þið bætt smá vatni út í, hitað hana upp og berið fram heita. Sáldrið smá ólívuolíu, salti og pipar yfir, berið fram og njótið!

Í eftirrétt eru svo súkkulaði, möndlu og chia orkukúlur sem ég elska og eru úr bókinni Ómótstæðileg Ella.
Þessi uppskrift gerir um 20 kúlur:
1 stór bolli möndlur (200gr)
2 stórir bollar Medjool döðlur (400gr) mikilvægt að þær séu ferskar!
4msk hrátt kakóduft
2msk möndlusmjör
2msk kókosolía
2msk chiafræ
2msk vatn

Aðferð:
1. Möndlurnar eru settar í matvinnsluvél í um 30sek og malaðar gróft.
2. Steinarnir eru fjarlægðir úr döðlunum og döðlurnar síðan settar út í matvinnsluvélina ásamt öllu öðru hráefni.
3. Allt unnið vel saman í matvinnsluvél þar til þetta er allt fullkomlega klesst saman.
4. Næst er deiginu rúllað í kúlur og þær svo frystar í u.þ.b. klukkustund þar til bornar fram. Ég næli mér bara í eina og eina með kaffinu.

Ég vona að þið njótið vel, ég veit að ég mun gera það.

Ég vil svo skora á kæra vinkonu mína og samstarfskonu hjá Marz Sjávarafurðum, hana Sigríði Elísabetu (Siggu Betu) til að koma með uppskrift í næsta blað. Ég veit hún lumar á einhverju góðu til að deila með okkur.

Kærar þakkir fyrir mig og lifið heil.

Sunna Guðný