Grænmetislasagna frá Gretu systur,

Takk fyrir áskorunina Guðfinna mín. Hér er uppskrift að einföldu en svakalega góðu grænmetislasagna frá Gretu systur.

200 g laukur smátt skorinn
200 g kúrbítur
300 g rauð og gul paprika
150 g sveppir gróft skornir
5 hvílauksrif smátt skorin
1 dós tómatpúrra
2 tsk oregano
1 tsk basil
1 stór dós kotasæla
salt og pipar eftir smekk.

Allt er sett saman í pott og látið sjóða í u.þ.b. 20 mín og sett svo í eldfast mót til skiptis með ferskum lasagnaplötum og osti stráð yfir. Haft í ofni í 50 mín með álpappír yfir fyrsta hálftímann sem síðan er tekinn af.

Með þessu er gott að hafa hvítlauksbrauð. Baguette er skorið í sundur og hvítlaukssalti stráð yfir. Síðan er smjör skorið í sneiðar með ostaskera og sett ofan á og þar næst vel af steinselju og osti. Hitað í ofni þar til brauðið er stökkt.

Ég skora á matmanninn og áhugakokkinn Jón Sindra Emilsson, mág minn og nágranna, að deila með okkur uppskrift úr sínu safni!