Grænmetispottréttur Siggu Betu

Takk fyrir áskorunina Sunna. Það gleður mig mikið að geta deilt með bæjarbúum uppskrift sem ég fann á netinu fyrir mörgum árum og hef eitthvað stílfært í gegnum árin. Þetta er snilldar grænmetis pottréttur, sem er ekki síðri daginn eftir.. eða þar á eftir.

2-3 msk olífuolía
1 laukur
1 tsk ferskt chili
1 msk milt karrímauk frá Pataks
2-3 msk tómatmauk
3 stórar gulrætur eða álíka magn niðurskorið grasker (butternut squash)
1 haus broccoli (eða blómkál)
1 rauð paprika (eða bara sú sem ykkur finnst best)
1 dós kókosmjólk
1 dós niðursoðnir tómatar
2 grænmetisteningar
1 dós nýrnabaunir
smá salt

Skerið grænmetið smátt.
Hitið olíu í potti og steikið laukinn í 5-7 mín. Bætið chili, karrý og tómatmauki útí og steikið í 2-3 mín.
Setjið allt grænmetið útí og hrærið þar til kryddið hefur blandast vel saman við það.
Bætið kókosmjólk, tómötum og nýrnabaunum útí ásamt grænmetiskraft.
Sjóðið í ca 30 mínútur og saltið eftir smekk. Eftir því sem rétturinn fær að malla lengur, því betri.

Muna svo, ekki bara lesa – endilega prófa!

Ég skora á nágrannakonu mína og samstarfskonu hjá Marz Sjávarafurðum, Snædísi Sif, til að deila með okkur einni af hennar snilldar uppskriftum. Takk fyrir mig og verði ykkur að góðu.

Sigga Beta