Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Hátíðarkótilettur í raspi með miklu smjöri

Jonni Ísleifs.

Ég hef víst þann heiður að senda inn uppskrift eftir að stórvinur minn Hjálmar skoraði á mig, og hér er nú afurðin:

Hátíðarkótillettur í raspi með MIKLU smjöri

Kótilettur í raspi eru herramannsmatur eins og allir vita, með smjöri, steiktum lauk, kartöflum og sultu.  Getur ekki klikkað og hentar á matarborðið hvort sem er í miðri viku eða hátíðarborðið.  Sennilega eru þær þó bestar kaldar daginn eftir en sjaldnast er nú samt afgangur af þeim.

Ég hef leikið mér undanfarin ár með mismunandi afbrigði en þessi uppskrift sem hér fer á eftir er algjör hátíðar.

4-6 kótillettur á haus, best er kaupa/undirbúa þær tveimur dögum fyrir át.

Setjið þær í ólífuolíu, með pipar og smá hvítlauk og leyfið þeim að taka sig.

Ca. 4 tímum fyrir eldun takið þær úr olíunni og leyfið að standa í herbergishita.

Penslið saman egg og dýfið kótilettunum í, látið standa, endurtakið rétt fyrir eldun og hjúpið þær með raspi.

Steikið aðeins á pönnu úr íslensku smjeri og látið raspinn ekki brenna, setjið í eldfast mót.

Þegar það er komin ein röð í mótið skal setja góðan slurk af íslensku smjeri ofan á hverja sneið og saltið eftir smekk, smá dass.

Endurtakið þangað til allar kótillettur eru steiktar

Hitist í ofni við 140-150 gráður í svona 15 mínútur eða þangað til smjerið er vel bráðnað.

Snæðist!

Raspurinn er trikkið:

Gamli góði PAXO að sjálfsögðu en bragðbættur með gömlu brauði sem hefur fengið að harðna og er mulið út í raspinn, magn fer eftir smekk.

Kartöflur:

Sjóðið, afhýðið og á meðan kótilettur eru í ofninum skal velta kartöflum upp úr smjeri og krydda með paprikkukryddi.

Lauk – Smjer feiti

Eitt stykki laukur,  eitt stykki rauðlaukur, saxað. Góður slatti af smjeri sett í pott og brætt.

Laukurinn settur út í og mýktur upp.

Hellingur af smjöri sett út á og brætt og þangað til að það snarkar og þá er frábær lauk–smjör sósa tilbúin.

Ef einhver vill eitthvað gras með þessu að þá er það í sjáfsvaldi sett en ég mæli ekki með því, þetta er snilld svona.

Veislumatur er nú tilbúinn til átu og njótið vel.

Þar sem það virðist vera smá trend að láta brottflutta Hólmara koma með uppskrift að þá ætla ég að senda boltann næst til Helsinki á Reyni Þór frænda.

Takk fyrir mig, Jonni Ísleifs