Hollt á milli hátíða

Yfir hátíðarnar erum við flest að borða ríflega af kjötmeti. Til að stemma stigu við því og létta kostinn agnarögn þá setjum við hér fram uppskrift að dásamlegri gulrótasúpu, gengur einnig undir nafninu biblíusúpa hér í Stykkishólmi, sem er ættuð frá Sr. Sigurði Árna Þórðarsyni presti í Hallgrímskirkju. Hún er hitaeiningasnauð, trefjarík og gælir við hjartað.

Hráefni
2 msk ólífuolía
4 hvítlauksrif
1 laukur
3 sellerístönglar
1 msk ferskrifin engiferrót
2 msk hveiti
12 dl kjúklingasoð
400 g gulrætur
1 tsk karrí
1 tsk kúmmínduft
½ tsk svartur pipar grófmulinn
1 dl döðlur
1 msk sítrónusafi
1 dl AB- mjólk

Hitið olíuna í potti. Merjið hvítlauk, saxið lauk og sellerí og bætið út í ásamt rifnu engifer. Hitið í 3-4 mínútur í olíunni og hrærið vel. Takið af hitanum og stráið hveiti yfir. Hitið í tvær mínútur til viðbótar og hrærið vel. Hellið nú kjúklingasoði í mjórri bunu út í súpuna og hrærið vel.
Rífið gulræturnar t.d. í matvinnsluvél, bætið út í súpuna ásamt karrí- og kúmín-dufti og pipar og hleypið upp suðu. Lækkið hitann og látið súpuna malla í tíu mínútur. Bætið söxuðum döðlum útí og látið malla áfram í fimm mínútur.
Hellið súpunni í matvinnsluvél og maukið. Hellið aftur í pottinn og hitið. Bætið sítrónusafa saman við.
Ausið súpunni á diska. Setjið 1 msk af AB- mjólk á hvern disk og búið til ævintýraleg mynstur með gaffli.
Gott er að bera fram nýbakað focacciu-brauð með.

sp@anok.is