Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Karrý Mangó Chutney kjúklingur Siggu Erlu

Ég þakka Gunnhildi kærlega fyrir áskorunina. Mér þykir mjög gaman að elda og reyni að gera það sem oftast. Þessi réttur verður oft fyrir valinu, sérstaklega þegar ég kem heim til mömmu og pabba í föstudagsmat og elda fyrir þau. Rétturinn er mjög góður og auðvelt að elda en einnig góður í nesti fyrir námsmenn sem nýta alla afganga!

Karrý Mangó Chutney kjúklingur
Olía
800 g kjúklingakjöt
Ein krukka mangó chutney
250 ml rjómi
2 msk karrý
1 tsk sítrónupipar
1/2 kjúklingateningur
Salt og pipar, magn eftir smekk

Hitið olíu á pönnu, setjið karrý á pönnuna og leyfið því að hitna. Steikið kjúklingakjötið á pönnunni í 2 – 3 mínútur á hvorri hlið eða þar til bitarnir brúnist vel. Leggið kjúklingabitana í eldfast form og útbúið því næst sósuna.
Hellið 250 ml af rjóma og mangó chutney í pott og hitið við vægan hita, kryddið til með karrý, sítrónupipar, kjúklingakrafti, salti og pipar. Hrærið vel í sósunni og þegar hún hefur náð suðu þá hellið þið sósunni yfir kjúklingakjötið og setjið inn í ofn við 180°C í 35 mínútur.
Heima í Ásklifinu þykir okkur best að hafa með hrísgrjón og nóg af fersku salati.

Að lokum vil ég skora á mágkonu mína, Tinnu Ólafsdóttur, sem er nýflutt í Hólminn okkar. Ég fæ alltaf eitthvað gott að borða þegar ég fer í heimsókn til þeirra Böðvars.

Njótið vel!

Bestu kveðjur
Sigga Erla