Kjúklingaleggir- og læri í potti

Dagbjört Hrafnkelsdóttir

Sú gamla þakkar fyrir áskorunina Hrafnkell minn.
Þessi réttur hefur fylgt mér lengi, hann er auðveldur í eldun og ekki verra að elda ríflega því hann er ekki síðri upphitaður daginn eftir (geyma afganginn í ískápnum auðvitað). Notaðu huggulegasta pottinn þinn því rétturinn fer á borðið í pottinum.
Ég er dulítið svona „dassari“ við eldamennskuna en eftirtalið er viðmiðin.

1 bakki kjúklingalæri og leggir
hveiti
svartur pipar
paprikuduft
salt
1 laukur
1/2 bakki sveppir
1 ds. niðusoðnir tómatar
1 hvítlauksrif
1/2 tsk. basil
1/2 tsk. timian
1/2 tsk. rosmarín

Hveiti, salt, pipar og paprikuduft blandað saman.
Kjúklingabitunum er velt uppúr hveitinu og steikt upp úr ólívuolíu á pönnu, færðir síðan yfir í huggulegasta pottinn.
Ég sker laukinn í báta, sveppina sker í ég fernt og skelli þessu á pönnuna og steiki létt.
Hvítlauksrifið kramið yfir rétt áður en ég set þetta yfir kjúklinginn í pottnum.
Basilikan, timianið og rósmarínið stráð yfir og tómötunum úr dósinni hellt yfir allt saman.
Þetta er svo látið mallað við lágan hita í 40 – 50 min.
Gott er að smakka soðið til sem er komið í lok eldunartímans með salti og pipar.
Engilinn á öxlinni minni segir að gott sé að bera þetta fram með fersku salati.
Púkinn á hinni öxlinni mælir hinsvegar eindregið með hrísgrjónum og góðu brauði (ótrúlega gott að dýfa brauðinu í soðið).
Svona auðvelt var nú það.

Uppskriftarpennann ætla ég svo að senda á Kæju mákonu mína, hún hefur sko ráð undir rifi hveru þegar kemur að bakstri og eldamennsku.

Dagbjört Hrafnkelsdóttir