Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Lakkrískubbar

Hildur Lára Ævarsdóttir

Ég þakka fyrir áskorunina móðir kær.
Þar sem mamma bæði bakar og eldar að mestu leyti ennþá ofan í mig fyrir jólin að þá hef ég ekkert sérstakt jólagúrm til að deila með ykkur. Ég hef hinsvegar í pokahorninu eina snilldar uppskrift sem passar allstaðar, á hvaða tíma árs sem er, við hvaða aðstæður sem er. Hvort sem það eru minni boð eða stærri veislur nú eða bara til að eiga í frystinum svo maður geti svalað sætindaþörfinni og laumast í bita öðruhverju.

Ég gleymi því seint þegar ég bragðaði döðlugott í fyrsta sinn hjá Sædísi frænku minni í Borgarnesi. Það var ást við fyrsta smakk! Ég var ekki lengi að sníkja hjá henni uppskriftina og henda í vænan skammt hérna heima, sem af óútskýrðum ástæðum gufaði upp á ógnarhraða…
Síðan þá hef ég prófað mig áfram með allskyns útgáfur af döðlugotti og ég held svei mér þá að ég hafi fundið hina einu fullkomnu uppskrift – ég allavega enda alltaf á að gera hana aftur .. og aftur og aftur! Það hafa sennilega allir ættingjar okkar og vinir smakkað þetta hjá mér! Góð vinkona hefur meira að segja látið frá sér þau stóru orð að ég geri besta döðlugott í heimi! .. Ekki lýgur hún 😉

Hér kemur uppskriftin af döðlugotti með lakkrískurli.

500 g döðlur saxaðar smátt
250 g smjör
120 g púðursykur
5-6 bollar rice crispies
2 pokar lakkrískurl
400 g rjómasúkkulaði

Aðferð
Byrjið á því að bræða saxaðar döðlurnar, smjörið og púðursykurinn saman í potti þar til döðlurnar eru orðnar vel mjúkar. Blandið þá rice crispies og lakkrískurli saman við og setjið í form og inn í frysti í 10 mínútur.
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði, hellið yfir rice crispies blönduna og setjið aftur í frystinn í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til súkkulaðið hefur harðnað.
Því næst skerið þið gotteríið í passlega stóra bita, berið fram og það mikilvægasta – njótið! 🙂

P.s. ég mæli ekki með því að leggja döðlurnar í bleyti áður en þær eru notaðar, frekar gefa þeim lengri tíma og leyfa þeim að mýkjast í pottinum ef þær eru eh stífar.
P.s.2. Ef þú ert kona með brjóstaþoku þá mæli ég ekki með að skella blöndunni í pottinn á hæðsta hita og fara svo að gera eitthvað annað á meðan hún bráðnar.

Ég ætla að halda keðjunni áfram hérna á Berverly-Bakka og sendi boltann á neðri hæðina og skora á mágkonu mína Guðrúnu Svönu að koma með einhverja snilld.

Að lokum vil ég senda öllum mínar bestu óskir um gleðilega hátíð og um leið minna fólk á það hversu mikilvægt það er að staldra aðeins við og bara vera og njóta.

Hildur Lára Ævarsdóttir