Pekan kjúklingur Snædísar

Ég vil byrja á því að þakka Siggu minni kærlega fyrir áskorunina. Ég ætla að deila með ykkur afar einfaldri uppskrift að heilum kjúkling, sem ég elda að meðaltali einu sinni í viku.

Það sem þarf:
1 heill kjúklingur
1 Sítróna
Nokkur hvítlauksrif
Ferskt rósmarín
Kókosolía
Salt
Pipar
Olía
1 sæt kartafla
Nokkrar gulrætur
Pekan hnetur

Aðferð:
Byrja á því að brytja niður gulrætur og sætu kartöfluna í meðal stóra bita (smekksatriði). Dreifi í eldfast mót, skutla slatta af Pekan hnetum yfir, vel af salti og vel af olíu (nota vökvann sem sósu).
Næst set ég í mortel hvítlauk (2-3 rif), smá sítrónusafa, salt, pipar og ferskt saxað rósmarín og vinn þessi hráefni vel saman. Þegar þetta hefur blandast vel, bæti ég slatta af kókosolíu í mixið og blanda saman.
Næsta skref er að skera sítrónu í 4 parta, taka utan af 4 hvítlauksrifjum og finna til 2 stilka af rósmarín.
Set þetta til skiptis i afturenda fuglsins.
Næst losa ég húðina frá kjúklingnum til þess að gera klárt fyrir næsta skref, sem er að setja gumsið undir húðina á kjúklingnum.
Dreifa þvi vel.
Legg kjúklinginn næst ofan á hráefnin í eldfasta mótinu. Set svo salt og pipar yfir kjúklinginn og jafnvel smá af söxuðu rósmarín.
Helli olíu yfir hann.
Þá er bara komið að því að henda þessu inn í ofn (180 gráður) í klukkutíma.
Mæli með að gera gott salat með.
Ég nýti svo afganginn að kjúklingnum í tortillur daginn eftir.

Verði ykkur að góðu.

Ég ætla að skora á hann pabba minn, Sigurð Ágústsson til þess að deila með okkur einum af hans mörgu uppskriftum.

Snædís Sif