Saltfiskbollur Yasminar

Mig langar að byrja á því að þakka Tinnu kærlega fyrir að skora á mig og að sjálfsögðu sendi ég uppskrift sem er vinsæl í Brasilíu en er upprunnin frá Portúgal. Í Brasilíu borðum við oft svona fiskibollur sem lystauka fyrir matinn. Ég held að þessi uppskrift verði enn betri hér á Íslandi þar sem þið eigið svo góðan fisk.

Fiskibollur sem forréttur eða lystauki (appetizer)
250 gr beinlaus saltfiskur, útvatnaður
2 soðnar kartöflur, 315 grömm
2 msk. Ólífuolía
1 lítill gulur laukur, saxaður fínt
2 hvítlauksrif, fínt söxuð
2 egg, hrærð
3 msk af ítalskri steinselju, fínt saxað
3 msk af steinselju, fínt saxað
3 msk af kóríander, fínt saxaður
Örlítið af cayannepipar á hnífsoddi
Svartur pipar eftir smekk
Mjólk til að þynna ef þarf
Ólífuolía eða grænmetisolía til að djúpsteikja

Setjið fiskinn í pott og bætið í vatni þannig að það fljóti yfir fiskinn. Látið sjóða á meðalhita og sjóðið í 10-15 mínútur. Látið renna af fiskinum og hann látinn kólna. Þá er fiskurinn settur í matvinnsluvél og maukaður. Setjið maukið í skál.
Stappið kartöflurnar og blandið þeim við fiskinn.
Hitið olíu á pönnu, setjið laukinn út í og hrærið í þangað til hann er mjúkur, í um það bil 8 mínútur. Bætið hvítlauknum í og mýkið í 2 mínútur. Hellið lauknum í skálina með fiskinum og kartöflunum. Bætið kryddjurtunum út í og kryddið með cayennepipar og svörtum pipar.
Ef blandan er of stíf, þynnið hana með mjólk.
Búið til litlar bollur og steikið í olíu, fáar bollur í einu og steikið í 5 mínútur. Takið bollurnar upp úr olíunni og setjið á eldhúspappír. Berið Fram heitar.

Sósa
60 gr af rauðum chili, fínt saxaður
4 hvítlauksrif, fínt söxuð
1 tsk. Salt
250 ml ólífuolía
60 ml af hvítvínsediki

Blandið öllu saman í hristara og hristið vel. Kælið yfir nótt.

Ég vona að þið njótið og verði ykkur að góðu.

Að lokum langar mig að skora á Silju Sigurjónsdóttur en hún er eins og við Tinna nýflutt í Stykkishólm.

Yasmin Lima