Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Uppskrift – 08.06.17 – Kjúklingur í smjörsósu

Ég ákvað að senda ykkur þessa uppskrift sem ég beinlínis stal beint af sviðinu í Salzburg!

Ég var að syngja í kórnum í Brúðkaupi Figarós og við stóðum með litlar bækur á sviðinu og áttum að þykjast vera að syngja upp úr þeim. Þetta reyndust vera pínulitlar uppskriftarbækur með mörgum spennandi uppskriftum. Ég gerðist svo kræf eftir síðustu sýninguna að rífa nokkrar blaðsíður úr sem mér leist best á! Ég geri þessa stundum ef einhver kemur í heimsókn þar sem þetta dugir fyrir u.þ.b. 5 manneskjur. Þetta er svolítið framandi og skemmtileg uppskrift.

„Kjúklingur í smjörsósu“

Það sem til þarf:

1 msk olía

100 gr smjör

2 laukar, fínt saxaðir

2 cm af fersku engiferi

2 tsk garam masala (krydd)

2 tsk mulinn kóríander

1 tsk chilliduft

1 stórt hvítlauksrif, smátt saxað

1 tsk salt

nýmalaður pipar

150 gr hrein jógúrt

2 msk tómatmauk/púrra 

8 kjúklingabringur

150 ml vatn

2 lárviðarlauf

150 gr rjómi

til að skreyta með í lokin:

ferskur kóríander

Gott með:

hrísgrjón

naanbrauð

1. Smjör og olía hitað saman á pönnu. Laukurinn steiktur þar í þar til hann er ljósbrúnn. Lækka hitann.

2. Mala engiferinn og setja í skál ásamt garam masala, kóríander, chilli, hvítlauk, salti og pipar. Blanda jógúrti og tómatmauki saman við og hræra vel.

3. Kjúklingabringurnar eru settar varlega í skálina með jógúrtblöndunni.

4. Jógúrtblandan er nú sett á pönnuna með lauknum í, allt hrært vel við góðan hita í 5 til 7 mínútur.

5. Nú er vatni og lárviðarlaufum bætt útí og allt látið malla í um 30 mínútur. Hræra af og til.

6. Rjóminn settur útí og blandan látin malla áfram í 10 til 15 mínútur.

7. Skreyta með kóríander og borið fram með hrísgrjónum og naanbrauði ef vill.

Góða matarlyst!

Ég skora á Katrínu Kristjánsdóttur sem býr í Vín í Austurríki. Hún tengist Stykkishólmi skemmtilega, þar sem móðir hennar á hús á Skúlagötunni. Kærar kveðjur heim í Hólm!