Uppskrift 24.11.16

Kristín Sigurðardóttir
Kristín Sigurðardóttir

Líney skoraði á mig að koma með uppskriftir í blaðið í dag, sem ég gat ekki hafnað, enda með eindæmum dugleg að segja já við flestum áskorunum.

Ég ætla að gefa ykkur uppskrift af kjúklingarétti sem er auðveldur að gera og mjög góður fyrir bragðlaukana.

Þessi uppskrift er ætluð fyrir 4 manneskjur.

Beikonkjúklingur.

4 kjúklingabringur

1/2 poki gulrætur

1 meðalstór púrrulaukur

1/2 bréf af beikonstrimlum

10 sveppir.

70 gr. valhnetukjarnar

15 stk. steinlausar döðlur.

500 ml. matreiðslurjómi

 

Steikja kjúklingabringurnar í olíu og smá smjöri og setja í eldfast mót.

Gulrætur, púrrulaukur, beikon og sveppir er skorið niður og steikt á pönnu í olíu og smjöri og sett yfir bringurnar. Síðan eru valhnetur og döðlur skornar í bita og bætt útí síðast ásamt rjómanum.

Þetta er sett í ofn á 180°C í 20 – 30 mín.

Borið fram með góðu salati, hrísgrjónum og brauði.

 

Ég ætla að gefa ykkur uppskrift af kanelbollum sem ég fékk hjá einni vinkonu minni sem býr í Noregi. Þessar bollur eru mjög góðar og fullar af gleði, ást og ánægju 🙂

Kanelbollur ca. 20 stórar bollur. 

 

1 kg. hveiti

3-4 tsk. malt kardemommur

210 gr. kókossykur eða venjulegur sykur

50 gr. ferskt ger

1 egg við stofuhita

6 dl. volg mjólk

150 gr. smjör við stofuhita og í bitum

Hafa 2 dl. hveiti til hliðar ef deigið verður klístrað.

Fyllingin í bollurnar er mjúkt smjör, kanill og sykur og 200 gr. mjólkursúkkulaði sem er brytjað niður í grófa bita. Það er líka hægt að bræða smjörið og pennsla því yfir deigið og bæta síðan restinni af fyllingunni yfir.

 

Setjið hveiti, kardemommur og sykur í hrærivélaskál og blandið gerinu í smáum bitum í blönduna. Egginu er síðan bætt útí og vélin sett í gang á hægum hraða. Mjólkin er sett útí í smáum skömmtum á meðan vélin gengur og þegar öll mjólkin er komin er hraðinn aukinn á vélinni og látið ganga í 10 min.(kannski þarf meiri hveiti í deigið ef það er of lint eða klístrað )

Næst er smjörið sett saman við deigið og hrært saman í 10 mín. Núna ætti deigið að vera létt og loftmikið. Deigið er síðan látið hefa sig við stofuhita í 1 1/2 hálfan tíma, en gott er að setja hveiti í botninn og yfir deigið svo það klístrist ekki fast.

Þegar deigið hefur hefað sig, er það flatt út á hveitistráðu borði og haft ca. 1,5 cm. þykkt. Reyna að fletja það meira út langsum en þversum til að fá sem mest út úr deiginu. Síðan er fyllingunni dreift yfir allt deigið og brotið saman eins og þegar er verið að gera vínabrauð: ein hliðin ( langsum ) er brett inn að miðju og síðan hin hliðin yfir svo að lengjan verði þreföld.

Lengjan er síðan skorin í ræmur ( þvert yfir ) ca. 2-3 cm. þykkar.

Það er settur snúningur á hverja ræmu og festa síðan endana saman eins og hnút svo úr verði einskonar bolla. Bollurnar eru síðan settar undir bökunarpappír og látnar hefa sig í 30 mín. og bakaðar síðan í miðjum ofni við 220°C í 10 – 15 mín.

Ef fólk vill þá er hægt að pennsla yfir bollurnar með eggi áður en þær fara í ofninn, til að fá fallegan lit á bollurnar.

Svo eitt að lokum bara svona til gamans. Norðmenn búa til grjónagrautinn eins og við gerum og nota kanelsykur út á grautinn, en í staðin fyrir mjólkina setja þeir 1-2 msk. af smjöri sem bráðnar í grautnum. Ég hef tekið uppá þessu og borða ekki grautinn öðruvísi í dag nema með smjöri enda miklu betri með smjörinu en mjólkinni. Endilega prufið þetta næst þegar þið hafið grjónagraut, ég mæli með þessu. Verði ykkur að góðu 🙂

 

Við næsta uppskriftarbloggi tekur við góð vinkona, sem hefur verið með mér í saumaklúbb yfir 25 ár og veit að hún á fullt af flottum uppskriftum af góðum réttum. Gerðu svo vel kæra vinkona og 1/2 systir Áslaug I. Kristjánsdóttir.

Kristín Sigurðardóttir