Miðvikudagur , 19. september 2018

9. bekkur GSS í heimsókn til Kolding

9. bekkur GSS 2017

Í byrjun maí fór 9. bekkur GSS ásamt kennara, skólastjóra og nokkrum foreldrum í hina árlegu Danmerkurferð. Þessi skólaferð er hluti af árslöngu verkefni sem bekkurinn, dönskukennari og foreldrar ákveða að taka að sér. Að hausti hefst vinnan: Fjáröflun og skipulagning á verkefnum í skólanum. Yfir veturinn vinna svo nemendurnir okkar með dönskum nemendum. Verkefnið í heild er samvinnuverkefni með grunnskóla í Kolding, vinabæ Stykkishólms.

Undanfarin ár hefur Grunnskólinn í Stykkishólmi unnið með Lyshøjskolen en að þessu sinni tók Friskolen á móti okkur og það með stæl. Móttökurnar voru frábærar og við eyddum þremur heilum dögum með vinum okkar í fallega Kolding áður en haldið var til Kaupmannahafnar.

Í Kolding var okkur m.a. boðið í ráðhúsið þar sem bæjarstjórinn tók á móti okkur og upplýsti hópinn um störf sín sem bæjarstjóri. Okkur var boðið í göngu um bæinn með fararstjóra, fjallahjólaferð, í Legoland og keilu svo eitthvað sé nefnt.

Það er óhætt að segja að við höfum nýttum tímann í Kaupmannahöfn vel: Síkjasigling, vaktaskipti við konungshöllina, Tivoli og svo var stokkið í sjóinn á Islandsbrygge. Stykkishólmsbær styrkti mjög menningarlegan þátt í þessari ferð og splæsti í højbelagt smørrebrød á flottum gömlum smørrebrødsstað í hjarta Kaupmannahafnar og við þökkum kærlega fyrir það.

Verkefninu er samt ekki lokið því í byrjun september tökum við á móti gestgjöfum okkar frá Friskolen og sýnum þeim fallega bæinn okkar og Snæfellsnesið.

Krakkarnir hafa sjálf ásamt foreldrum sínum safnað fyrir Koldingverkefninu m.a. með kleinusteikingu í vetur og vilja þau koma á framfæri þökkum til þeirra bæjarbúa og fyrirtækja sem hafa styrkt hópinn með kleinukaupum.

Sigga Lóa dönskukennari GSS