Þriðjudagur , 19. febrúar 2019

Ljósmyndabók um St.Franciskussystur

Út er komin Ljósmyndabókin „Systurnar í Hólminum“ St Franciskussystur 1935-2009.

Það er fátt, ef þá eitthvað, sem hafði meiri áhrif á ásýnd og orðspor Stykkishólms á 20 öldinni, heldur en Spítalabygging St.Franciskussystra og hin margháttaða starfsemi þeirra þar í bæ.  Ljósmyndabók þessi, sem byggir að stórum hluta á myndum sem systurnar skildu eftir í vörslu bókarhöfundar, þegar þær fóru af landi brott á haustmánuðum árið 2009, er hugsuð sem örlítill þakklætis og virðingarvottur, við hið mikla og óeigingjarna starf sem St.Franciskussystur inntu af hendi í þágu Stykkishólmsbúa og nærsveitunga þeirra, þau 74 ár sem þær héldu hús í Hólminum.

Saga St.Franciskussystra er hluti af og algerlega samtvinnuð sögu Stykkishólms á 20. öld og ljósmyndir þær sem safnast höfðu að systrunum á þessum tíma ómetanleg gögn út frá sagnfræðilegum sjónarhóli.  Myndir þessar spanna allt tímabilið frá 1930 og fram á síðustu daga St.Franciskussystra í Hólminum.

Eftir að myndir höfðu verið valdar og textar ritaðir, var  fjölmiðlafyrirtækið ANOK Margmiðlun í Stykkishólmi fengið að sjá um umbrot og Prentsmiðjan PRENTMET sá um prentun og bókband. Til fjármögnunar framtakinu, var leitað til bæði Menningarsjóðs Stykkishólmsbæjar og Minningarsjóðs St.Franciskussystra, sem hvorir tveggja brugðust vel við og veittu fé til verksins. Eyþór Benediktsson las próförk.  Kann höfundur þessum aðilum hinar bestu þakkir fyrir.

Bókin verður til sölu í takmörkuðu upplagi hjá Bókaverslun Breiðafjarðar og kostar kr.4500.-

Ægir Jóhannsson