Sögur úr Helgafellssveit og nágrenni

Ég lét gamlan draum rætast og gaf út bók.

Það hefur lengi verið mér hugleikið að safna saman sögum úr Helgafellssveit og nágrenni og koma þeim á aðgengilegt form svo sögurnar lifi áfram með þeim sem hér búa og öðrum sem sýna því áhuga.

Ég hef verið iðin við að halda á lofti og nýta mér þá náttúrufegurð sem umhverfi Stykkishólms hefur upp á að bjóða. Ég hef safnað sögum tengdum svæðinu og allt þetta hefur gefið mér og mörgum öðrum gleði og ýtt undir gönguáhuga. Í því samhengi má bæði nefna Göngugarpahópinn sem var hér við lýði frá árinu 1996-1998 og Hebbana sem var flottur hópur sem tók til starfa árið 2006. Undirrituð stofnaði þann hóp og stýrði til ársins 2013. Bókin hefur að geyma afrakstur þeirrar vinnu. Það er að segja sögur um staði og örnefni ásamt sögum um venjulegt fólk, huldufólk og aðrar furðuverur. Bókin hefur að geyma um 30 myndir sem Ásta Sigurðardóttir hefur ýmist tekið fyrir verkefnið eða átt í sínu safni. Myndirnar eru tær snilld.

Örnefni og saga eru stór hluti af því að læra að bera virðingu fyrir náttúrunni og nánasta umhverfi sínu. Náttúran er fjölbreytt og háð sínum eigin lögmálum. Helgafellssveitin hefur upp á margt að bjóða þegar hugað er að útivist.

Borgarættin á rætur að rekja í Helgafellssveitina. Faðir minn Jón Lárus Bæringsson bjó í Bjarnarhöfn ásamt foreldrum og systkinum og reyndar mörgum fleirum á árunum 1932-1951. Pabbi bjó svo vel að sjá Bjarnarhafnarfjallið út um gluggann hjá sér á Höfðagötunni og hann sá fjallið fallegra með hverju árinu sem leið. Bókin er tileinkuð minningu hans.

Þessi bók hefur verið geðræktar verkefni hjá mér síðustu ár. Það er jú þannig að enginn kemst í gegnum lífið án þess að þurfa að ganga hinar ýmsu brekkur. Það er svo spurning um hvernig okkur tekst að nýta þá göngu.

Í mínum brekkum hef ég sest niður og unnið í þessari bók og það hefur gefið mér gleði.

Brekkurnar geta verið af ýmsum toga. Þannig var að ég lenti í einni slíkri síðasta sumar og lá þá um tíma á sjúkrahúsinu hér í bæ. Á næstu stofu við mig var Hafþór frændi. Hann er nú aftur lentur í brekku og hef ég því ákveðið að leggja þeim lið með innkomu af sölu þessarar bókar. Bókina er hægt að nálgast í Bókaverzlun Breiðafjarðar.

Lista- og menningarsjóður Stykkishólms styrkti útgáfu bókarinnar og færi ég þeim bestu þakkir fyrir.

Til að fagna útgáfu þessarar bókar hef ég ákveðið að bjóða upp á sögugöngu þegar nær dregur sumri.  LÍFIÐ ER NÚNA.

Hanna Jónsdóttir