Aðventan lífleg í Stykkishólmi

Í dag er dagur heilags Nikulásar sem er betur þekktur sem Santa Claus í sumum löndum. Að viku liðinni, 13. desember, er dagur Lúsíu víða haldinn hátíðlegur. Það voru aldeilis hátíðisdagar um nýliðna helgi um land allt ekki síst hér í Stykkishólmi. Sama hvort um var að ræða laugardag eða sunnudag það var hátíð og gleði í bæjarbragnum. Frábær sýning í Grunnskólanum sem starfsfólk og nemendur unnu hörðum höndum að í síðustu viku í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Niðri á Plássi var mikið líf enda opið í Norska húsinu, Æðarsetrinu, Ásbyrgi, Narfeyrarstofu og svo var StykkishólmsBitterinn á efri hæð Æðarseturstins í ár. Fólk rölti á milli og voru margir á ferð þrátt fyrir kulda og rok svo pils og skotthúfur feyktust hressilega í vindinum. Konur í þjóðbúningum komu saman í Norska húsinu og þáðu heitt súkkulaði og sörur sem ekki veitti af því hitastigið á miðhæð hússins var heldur lágt. Tónleikar voru í gömlu kirkjunni um kvöldið og þá var nú nauðsynlegt að vera í hlýjum fatnaði einnig!

Á sunnudeginum var hinn margrómaði basar kvenfélagsins Hringsins og að þessu sinni í Grunnskólanum. Fjöldi fólks lagði leið sína í grunnskólann enda margir fagrir gripir og nytsamir í boði sem endranær. Jólatré voru tendruð víða nýliðna helgi og nú ljóma þau í hverju sveitarfélagi hér á Snæfellsnesi og skemmtilega ólík á milli bæja.

Jólastemningin skríður inn í rólegheitum þessa dagana enda skólastarf á síðustu dögunum og vikum fyrir jólafrí og þá fer fólk á öllum aldri að undirbúa jólin.

Í byrjun vikunnar voru starfsmenn áhaldahúss að festa jólaskraut á ljósastaura bæjarins en þá ferðaðist lognið mun hægar yfir en dagana á undan svo vel gekk að setja það upp, eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Svona er aðventan, nóg um að vera! Kvöldopnun er í nokkrum verslunum í kvöld hér í Hólminum, en hægt er að sjá hvar á Aðventudagatalinu góða. Áfram halda viðburðir um næstu helgi þegar jólastund verður í Bókasafninu og piparkökur verða skreyttar í Norska húsinu. Jólamót HSH verður á sunnudag í íþróttamiðstöðinni, morgunmessa hjá systrunum og kvöldmessa í Stykkishólmskirkju á annan sunnudag í aðventu. Svo eru jólatónleikar Tónlistarskólans í Stykkishólmskirkju verða svo næsta miðvikudag og svo framvegis, og svo framvegis.

am/frettir@snaefellingar.is