Þriðjudagur , 25. september 2018

Gestastofa Snæfellsness

Samþykkt hefur verið í bæjarstjórn Stykkishólms að veita 500.000 kr. af fé sem eyrnamerkt er Stykkishólmi og Grundarfirði vegna verkefnisins „Ímynd Snæfellsness” í verkefni tengt Gestastofu Snæfellsness.

Uppi eru hugmyndir um hvort Svæðisgarðurinn Snæfellsnes geti staðið fyrir uppbyggingu og rekstri á gestastofu sem veitir upplýsingar um Snæfellsnes í heild í samvinnu við fyrirtæki og sveitarfélög. Áhersla verði lögð á þjónustu og vörur, m.a. mat, áfangastaði og ferðaleiðir.

Verið er að athuga hvort vilji sé fyrir hendi hjá eigendum félagsheimilisins Breiðabliks í Eyja- og Miklaholtshreppi að nýta það húsnæði undir gestastofuna.

Búið er að fara í greiningu á nýtingu íbúa Eyja- og Miklaholtshrepps á félagsheimilinu og viðhorfi þeirra til þess að breyta starfsemi og rekstri félagsheimilisins. Verkefnið tengist atvinnu– og umhverfismálum, endurskoðun á upplýsingaveitum og öryggisþáttum svo fátt eitt sé nefnt.

Fari það svo að hægt verði að nýta aðstöðu í félagsheimilinu Breiðabliki undir gestastofu fyrir Snæfellsnes fer af stað vinna sem snýr að því hvernig starfssemin þar verður sett upp.

Í febrúar verður námskeið með tveimur staðarlotum á Breiðabliki en annars í gegn um fjarnámsvef. Þar verður fjallað um margvíslegar áherslur varðandi uppbyggingu á gestastofum og upplýsingamiðlun til ferðamanna. Námskeiðið er í samvinnu Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands, Svæðisgarðs Snæfellsness og ferðamáladeildar Háskólans á Hólum með styrk frá Sóknaráætlun Vesturlands. 17 þátttakendur af Snæfellsnesi eru skráðir á námskeiðið. Að námskeiðinu loknu verður haldinn opinn fundur þar sem fjallað verður um og unnið með ýmsar hugmyndir varðandi Gestastofu Snæfellsness.

Vegfarendur hafa e.t.v. tekið eftir því að búið er að setja upp bensíndælur við félagsheimilið á Breiðabliki og eru þær komnar í gagnið. Sú starfsemi er þó að öllu ótengd gestastofuverkefninu.