Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Aukið samráð við íbúa

Theódóra Matthíasdóttir 3. sæti, Okkar Stykkishólmur

 

Eitt af gildum Okkar Stykkishólms er að stuðla að þátttöku íbúa í bæjarmálum. Þannig viljum við stuðla að góðu samstarfi íbúa Stykkishólms, starfsfólks og bæjarfulltrúa. Kjörnir fulltrúar eiga að taka ákvarðanir með hliðsjón af þörfum og viðhorfum íbúa og mati á heildarhagsmunum þeirra og bæjarfélagsins. Til þess þurfa sveitarstjórnir að vera í góðum tengslum við íbúa og þekkja viðhorf þeirra. Íbúarnir sjálfir eru sérfræðingar í eigin nærumhverfi og samráð við þá hlýtur að stuðla að vandaðri ákvarðanatöku.

Á dögunum gaf Samband íslenskra sveitarfélaga út handbók sem ber nafnið Íbúasamráð í sveitarfélögum og þátttaka íbúa. Þar kemur meðal annars fram að sveitarstjórnarfólk hefur hingað til talið gagnlítið að bjóða upp á samráð við íbúa. Fáir mæti og oftast sama fólkið. Ástæða þessa virðist þó vera sú að sveitarfélög hafa almennt ekki beitt réttum aðferðum til þess að ná til fólks.
Íbúasamráð er vandmeðfarnara en maður gæti haldið. Til þess að raunverulegur árangur náist af íbúasamráði þarf sveitarfélag að marka sér skýra stefnu um hvernig og af hverju vinna eigi að samráði við íbúa. Miklu máli skiptir að samráð sé haft frá upphafi ákvarðanatöku svo hægt sé að hafa áhrif alveg frá byrjun. Allra mikilvægast er þó að sveitarstjórn sé sammála um að hún hafi raunverulegan áhuga á að hafa viðhorf íbúa til hliðsjónar við ákvarðanatöku.

Þær eru óteljandi ákvarðanirnar sem teknar eru á sveitarstjórnastigi og auðvitað ógerningur að hafa samráð við íbúa um þær allar. Mælt er með samráði þegar ráðist er í stórt skipulags-, framkvæmda- og umhverfisverkefni, við stefnumótun um málefni sem eru hluti af daglegu lífi íbúa, þegar þörf er á nýrri hugsun og nýsköpun í framkvæmd verkefna og til að fá sjónarmið íbúa við forgangsröðun valkosta. Við hjá Okkar Stykkishólmi teljum heppilegast að byrja á því að tengja samráðið við fasta áætlanagerð og stefnumótun sveitarfélagsins, á meðan unnið er að því að virkja íbúasamráð í sveitarfélaginu. Dæmi um það er þarfagreining fyrir ýmsa málaflokka bæjarfélagsins sem og gerð framkvæmdaáætlunar.

Til þess að íbúasamráð verði árangursríkt er fyrsta skrefið að opna aðgengi íbúa að öllum upplýsingum um rekstur bæjarfélagsins og þau verkefni sem á að hafa samráð um. Til þess eru margar leiðir færar og höfum við þegar nefnt og útfært nokkur verkefni sem miða að því að upplýsa íbúa. Til dæmis að opna bókhald sveitarfélagsins, senda út bæjarstjórnarfundi, gera fundargerðir ítarlegri og hengja tilheyrandi erindi og gögn við þær sem og að standa fyrir íbúaþingum varðandi ákveðin málefni.

Mikilvægt er að bjóða upp á samráð á mismunandi formi til þess að ná til sem flestra. Gott er að nýta sér kosti rafrænna miðla en auk þeirra er nauðsynlegt að halda íbúafundi, samráðsfundi, bjóða í vinnuhópa o.s.frv. Við sjáum fyrir okkur að halda fundi á mismunandi tímum og skoða möguleika á að bjóða upp á túlkaþjónustu og barnapössun svo hægt sé að fá sjónarmið sem flestra inn í umræðu og ákvarðanatöku.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að íbúum sé gerð grein fyrir niðurstöðum samráðsins auk þess að þeim sé gert kleift að gefa endurgjöf um samráðsferlið svo hægt sé að læra af reynslunni, og jafnvel gera betur næst.

Virkt íbúasamráð er langtímaverkefni sem þarf að skipuleggja vel. Með tímanum ætti slíkt samráð að verða sjálfsagður hlutur í augum allra, íbúa, bæjarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins. Okkur Hólmurum hefur þegar tekist að gera flokkun sorps að eðlilegum hlut í daglegu lífi svo þetta ætti nú ekki að verða okkur fjötur um fót. Með því að hlusta á að leitast við að skilja sjónarmið annarra getum við komist að bestu niðurstöðunni sem flestir, vonandi allir, ættu að geta unað við.

Theódóra Matthíasdóttir
3. sæti, Okkar Stykkishólmur