Fjármálaráðstefna sveitarfélaga

Dagana 5.-6. október var haldin fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga 2017 í Reykjavík. Mörg erindi voru þar og flutt og er hægt að sjá myndbönd á vef sambands sveitarfélaga samband.is af hverju og einu. Þar er einnig hægt að kynna sér gögn sem lögð voru fram. Þarna liggja fyrir áhugaverðar upplýsingar um rekstur og hlutverk sveitarfélaga og m.a. var kynnt myndræn framsetning talnaefnis og er því mun auðveldara að glöggva sig á talnaliðum sveitarfélaga hverju um sig og til samanburðar við önnur.

Eitt af erindum ráðstefnunnar var ný skýrsla um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga sem Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir formaður verkefnisstjórnar á vegum samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins kynnti.
Var í þeirri vinnu efnt til samstarfs við íbúa sveitarfélaga og ekki síður við sveitarstjórnarfólk út um allt land. Helstu niðurstöður í starfi nefndarinnar voru þær að stjórnvöld marki skýra stefnu fyrir sveitarfélög til allt að 20 ára, jöfnunarsjóður verði endurskoðaður og styðji við stefnuna og að stjórnvöld taki markvissari þátt í verkefninu um styrkingu sveitarstjórnarstigsins því íbúar vilja góða þjónustu og gott mannlíf burtséð frá því hver veitir þjónustuna. Kom einnig skýrt fram í skýrslunni að sveitarstjórnarfólk vill ekki þriðja stjórnsýslustigið.
Þegar rætt var um hvernig ætti að efla sveitarstjórnarstigið kom fram að efla þyrfti lýðræðislegri þátttöku íbúa um stefnumörkun og ákvarðanatöku á öllum sviðum, nýta þyrfti rafræna tækni við stjórnsýslu, auka samskipti ríkis og sveitarfélaga markvisst og breyta þyrfti verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að sveitarfélög stækkuðu og yrðu sjálfbærari.  Hækka þarf lágmarskfjölda íbúa í sveitarfélögum í þrepum og niðurstaðan að íbúar ættu ekki að kjósa um sameiningar því af þeim leiddi frekar sundrung en sameining.
Þannig var lagt upp með að árið 2022 yrðu íbúar ekki færri en 500 í hverju sveitarfélagi og árið 2026 ekki færri en 1000. Afnema ætti alla fjárhagslega hvata sem vinna gegn sameiningu sveitarfélaga og jöfnunarframlög verði einföld, hlutlæg og óháð stærð sveitarfélaga.

Tenglar á vef ráðstefnunnar:
Linkur í myndræna framsetningu talnaefnis: http://www.samband.is/verkefnin/rekstur-sveitarfelaga/talnaefni/myndraen-framsetning-talnaefnis/

Linkur í erindi Eyrúnar: http://www.samband.is/media/fjarmalaradstefna-2017/Eyrun.pdf

Linkur í fjármálaráðstefnuna: http://www.samband.is/verkefnin/fjarmal-sveitarfelaga/fjarmalaradstefnur/fjarmalaradstefna-2017