Vel heppnuðu Evrópumóti lokið

Evrópumótinu í sjóstöng sem haldið var í Ólafsvík lauk á síðasta föstudag og voru keppendur almennt ánægðir með fyrirkomulag mótsins. Fyrirkomulagið var þannig að veiðitíminn var 5 klukkustundir hverju sinni og skiptist á morguntíma frá 07:00-12:00 og eftirmiðdagstíma 14:00-17:00. Ekki tókst þó að fara út á sjó alla dagana en á þriðjudeginum var mjög mikið hvassviðri og því ekki farið út. Höfðu sumir veiðimannanna það á orði, sérstaklega þeir frá Suður- Evrópu, að þeir hefðu aldrei séð annað eins veður.
14 bátar tóku þátt í mótinu og voru þar af þrír frá Patreksfirði, fóru allir bátarnir í tvo róðra á degi hverjum. Lögðu skipstjórar sig alla fram við að reyna að finna þær fisktegundir sem gáfu stig en mótið var tegundamót og einungis 10 fiskar af sömu tegund gáfu stig. Sá veiðimaður sem fékk flest aflastig á sínum báti fékk því 100% skor en aðrir minna reiknað í prósentum. Þeir veiðimenn sem unnu báta sína alla dagana fengu því 300% skor og voru það einungis 3 keppendur. Væru tveir eða fleiri keppendur jafnir að stigum var reiknað eftir heildar aflastigum og vann sá mótið sem flest aflastig fékk. Dygði sá útreikningur ekki var næst farið í að reikna eftir fjölda tegunda og loks fjölda fiska.
Evrópumeistari karla þetta árið varð Petter Skudal frá Noregi með 300% skor og 566 aflastig. Í öðru sæti varð Scott Gibson frá Skotlandi með 300% skor og 490 aflastig í þriðja sæti varð svo Andrew Smith frá Englandi einnig með 300% skor og 471 aflastig. Keppt var einnig í 2. og 4. manna sveitum, í flokki kvenna, eldri veiðimanna og ævifélaga. Auk þess kepptu landslið þjóðanna 14 sem þátt tóku innbyrgðis. Sveit Norðmanna vann landsliðakeppnina. Verðlaun voru einnig veitt fyrir lengsta fisk móstins í hverri tegund sem voru 16 og hlutu tveir Íslendingar verðlaun þar, þeir Gunnar Jónsson fyrir stærstu keiluna en hún var 71 sentimeter og Skarphéðinn Ásbjörnsson fyrir stærstu tindabikkjuna sem mældist 40 sentimetrar mælt frá börðum. Aflahæsti skipstjórinn varð Skarphéðinn Ásbjörnsson á bátnum Guðlaugi SH-62, en hann var einnig keppandi, með 135,48 aflastig að meðaltali á stöngina þessa þrjá veiðidaga. Ævar Þrastarson á Dodda SH-222 varð í öðru sæti með 133,17 aflastig að meðaltali á stöngina og Einar Helgason í þriðja sæti á Kolga BA-070 með 132,75 aflastig að meðaltali.
Eins og áður segir heppnaðist mótið með ágætum þó að veðrið væri aðeins að stríða keppendum og mótshöldurum einn daginn. Mótinu lauk svo með verðlaunaafhendingu og kvöldverði í Félagsheimilinu Klifi föstudagskvöldið 1. júní. Höfðu margir erlendu keppendanna á orði að þeir vildu endilega koma aftur til að veiða og keppa á Íslandsmiðum, enda er Ísland þegar farið að afla sér góðs orðs að ávallt megi draga fisk úr sjó hversu reynslulítill sem veiðimaðurinn er.
Vildi EFSA á Íslandi fá að koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lögðu fram vinnu sína endurgjaldslaust, styrktaraðila, skipstjóra, aðstoðarmanna í landi og annarra þeirra sem aðstoðuðu og hjálpuðu til við að gera Evrópumótið í sjóstöng að veruleika.
þa/Bæjarblaðið Jökull